Fækkun mjólkurbænda gagnast neytendum

28.02.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýi búvörusamningurinn kemur til með að auka framleiðni í landbúnaði og hann mun nýtast bændum og neytendum. Þetta segir fjármálaráðherra. Hann segir að mjólkurbændum hafi fækkað um tæp 70% á síðustu 20 árum og að áframhald verði á þeirri þróun.

Nýi búvörusamningurinn sem undirritaður var í síðustu viku er til 10 ára. Samkvæmt honum aukast framlög ríkisins til landbúnaðarins um 900 milljónir króna á næsta ári en fara svo lækkandi á samningstímabilinu.
Samningurinn er umdeildur, meðal annars hafa stjórnarþingmenn úr liði Sjálfstæðisflokks lýst yfir andstöðu sinni við hann.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að þegar öllu sé á botninn hvolft þá hafi nýi samningurinn ekki svo miklar breytingar í för með sér þegar kemur að innstreymi fjármuna inn í landbúnaðarkerfið.

„Heilt yfir þá eru samningarnir til þess fallnir að auka framleiðni í landbúnaði og ég tel að þessi samningar muni bæði nýtast bændum og íslenskum neytendum,“ segir Bjarni.

Bjarni bendir á að gríðarlegar breytingar hafi átt sér stað í íslenskum landbúnaði á síðustu árum.

„Það eru ekki nema um 20 ár síðan við vorum með tæplega 2.000 mjólkurbændur, um 1850 mjólkurbændur, sem eru um 650 í dag og það eru allir sammála um að sú þróun muni halda áfram, þannig að búin haldi áfram að stækka og framleiðslukostnaður pr. framleiddan lítra heldur áfram að lækka. Þetta nýtist neytendum í landinu með ótvíræðum hætti, en líka bændum.“