Faðir uppvakningahryllingsins látinn

Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
epa01854312 US director George A. Romero poses on the red carpet before the screening of 'Survival of the Dead', presented in competition, at the Venice Film Festival, in Venice, Italy, 09 September 2009.  EPA/ANDREA MEROLA
 Mynd: EPA

Faðir uppvakningahryllingsins látinn

Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
16.07.2017 - 23:55.Ævar Örn Jósepsson
George Romero, leikstjóri tímamótamyndarinnar Nótt hinna lifandi dauðu (e: Night of the Living Dead) og brautryðjandi uppvakningahryllingsins er látinn, 77 ára að aldri. Nótt hinna lifandi dauðu var frumsýnd 1968. Hún var kvikmynduð í svart-hvítu fyrir lítið fé, rétt ríflega 100.000 dollara, en náði fljótt miklum vinsældum víða um heim. Hún halaði inn einar 30 milljónir Bandaríkjadala og gat af sér fimm framhaldsmyndir, þar á meðal Dögun hinna dauðu og Dag hinna dauðu.

Allar fjalla þær um uppvakninga, og almennt er Nótt hinna lifandi dauðu talin marka upphaf þeirrar að því er virðist ódrepandi hliðargreinar hryllingsmyndaformsins. Allar uppvakningamyndirnar voru kvikmyndaðar í og við Pittsburgh, þar sem Romero gekk í háskóla. Hann var sonur kúbansks föður og bandarískrar móður af litháískum uppruna. Romero fékk hægan dauðdaga í faðmi fjölskyldu sinnar; konu og dóttur. Banamein hans var lungnakrabbamein.