Faðir íhugar að stefna kennara fyrir vanrækslu

04.03.2016 - 19:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingvar Guðmundsson, faðir stúlku í Kelduskóla, segir að skólinn hafi beitt börnum í vinnu í dag við að hreinsa klaka af sparkvelli sem er þakinn dekkjakurli. Hann íhugar að stefna kennara skólans fyrir vanrækslu en skólinn segir að börnin hafi átt frumkvæði að hreinsuninni.

Sparkvöllur við Kelduskóla í Reykjavík hefur verið þakinn þykkum klaka að undanförnu, nemendum skólans til mikillar gremju. Faðir tólf ára stúlku segir að hún hafi komið dauðþreytt heim úr skólanum í dag eftir að kennarinn hennar fyrirskipaði nemendum á skólatíma að losa klakann af vellinum, og hann er ekki sáttur.

„Að börnum sé beitt í að losa upp klaka þegar það er vitað mál að undir klakanum leynist dekkjakurl sem er búið að vera í umræðunni undanfarna daga og er mjög óheilsusamlegt og meðan það er allt í óvissu að vera að senda krakka að losa um þetta dekkjakurl er náttúrulega bara fáránlegt,“ segir Ingvar í samtali við fréttastofu.

Skólastjórinn baðst undan viðtali

Skólabörnin losuðu klaka af 20 til 30 fermetra svæði á sparkvellinum. Árný Inga Pálsdóttir, skólastjóri Kelduskóla, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins.  Hún sagði að skólabörnin hefðu haft frumkvæði að hreinsuninni og þau hefðu borið það undir kennarann sem hafi veitt leyfi fyrir því.

„Barnið mitt hafði alla vega ekki frumkvæði að þessu, ég spurði hana að því, og hvort einhverjir krakkar innan skólans hafi verið að ýta á skólann að gera eitthvað, þá eiga þeir náttúrulega að beita starfsmönnum skólans eða bæjarstarfsmönnum í það að brjóta upp klakann en ekki nemendum,“ segir Ingvar. „Og ég er að skoða þau mál að stefna kennaranum fyrir bara vanrækslu í starfi, því hún er ekki að beita börnunum rétt.“