Fá styrk frá bænum til að rífa veggjatítlu-hús

18.05.2017 - 17:46
Mynd með færslu
Anna Gyða Pétursdóttir og Ingvar Ari Arason  Mynd: RÚV
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í morgun að styrkja hjónin Ingvar Ara Arason og Önnu Gyðu Pétursdóttur um 3,7 milljónir til að rífa hús þeirra við Austurgötu 26. Hjónin misstu aleiguna eftir að lirfur veggjatítla átu sig í gegnum timbur í húsinu þeirra. Auk þess fannst mygla í þaki hússins.

Styrkurinn er veittur í samræmi við kostnaðarmat af hálfu umhverfis - og skipulagsþjónustu bæjarins. Framkvæmdir verða síðan í fullu samráði við bæjaryfirvöld og fól bæjarráð bæjarstjóra frekari úrvinnsla málsins.

„Þetta eru alveg ótrúlega góðar fréttir miðað við þá stöðu sem við erum í,“ sagði Anna Gyða  í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. „Þessi upphæð skiptir okkur mjög miklu máli.“  Anna Gyða segir að mál þeirra sé enn í vinnslu hjá bankanum. Þar hafi verið tekin sú ákvörðun að frysta lánin í þrjá mánuði þar til niðurstaða væri komin þar. „Það skiptir okkur máli ef við þurfum að borga af lánum af eign sem er í raun ekki til.“

Hún segir að útibúið hafi tekið vel á móti þeim og sýnt máli þeirra mikinn skilning. Vinir og ættingjar hjónanna hafa staðið fyrir söfnun og Anna Gyða segir að hún hafi gengið ótrúlega vel. „Það er ótrúlega mikið af fólki sem við þekkjum ekki neitt en hefur lagt okkur lið. Það er eiginlega alveg ómetanlegt.“ Þetta sé það eina sem þau geti stuðst við - bæinn, bankann og síðan söfnunina.

Ítarlega hefur verið fjallað um mál hjónanna í fréttum RÚV. Þau fundu veggjatítlu í húsinu rétt eftir páska eftir að parketið hafði verið pússa. Í ljós kom að húsið var ónýtt en þau hafa búið þar síðan 2012 og lagt mikinn metnað í að gera það upp. Jafna þarf húsið við jörðu en tryggingar ná ekki yfir slíkt tjón.