Fá ekki sálfræðinga til starfa út á land

27.01.2016 - 17:57
Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero  -  RGBStock
Átakanlegt er að horfa uppá úrræðaleysi fólks sem glímir við andleg veikindi eða hefur þörf fyrir þjónustu fagaðila sem fást ekki til starfa á landsbyggðinni. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar telur mikilvægt að Alþingi skorist ekki undan ábyrgð sinni en álag aukist mjög á sveitafélögin við að takast á við afleiðingar úrræðaleysisins. Sveitafélögin hafi ekki bolmagn til að taka að sér verkefni ríkisins nema því fylgi fjármagn. Forstjóri HSA segir mjög erfitt að manna stöður sálfræðinga við stofnunina.

Ófremdarástand ríkir í geðheilbrigðismálum á landsbyggðinni almennt en Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, horfir til þess að bæta aðgengi landsmanna að sálfræðiþjónustu og hyggst fjölga stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum úr 15 í 37 á næstu tveimur árum. Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar fagnar því að göfug markmið séu sett fram og mikilvægt að þessar áætlanir gangi eftir og verði að veruleika sem fyrst. Gangi áætlanir ráðherra eftir eftir verður unnt að bjóða sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Ekki tekist að ráða í eitt og hálft stöðugildi

Í dag er hálft stöðugildi af þessum 15 hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA. Ekki hafi tekist að ráða í þessa hálfu stöðu enn sem komið er. Sálfræðingur sem starfaði hjá stofnuninni í sérstöku verkefni sem beinist að geðrænum vanda barna hafi tekið sér árs leyfi og ekki hafi heldur gengið að ráða afleysingamanneskju í hans stað. Því starfar enginn sálfræðingur við HSA í dag.

Fjölgun fagfólks tilefni til bjartsýni

Kristín telur markmið heilbrigðisráðherra raunhæft og það myndi breyta stöðunni því þörfin er mjög mikil. Það hefur verið sérstök áhersla á að sinna yngsta hópnum í gegnum ABG-verkefnið, geðrænt verkefni sem ber heitið Aðstoð við börn með geðrænan vanda. Það hefur verið starfrækt á Austurlandi í sjö ár og sálfræðingurinn sem vísað var til að ofan var í fullu starfi við það verkefni hingað til.

Kristín Albertsdóttir segir þó tilefni til bjartsýni því það séu margir nýir sálfræðingar að koma úr námi nú í byrjun sumars. Það verði spennandi að sjá hvernig þessi hópur tekur þeirri áskorun að starfa á landsbyggðinni. Gangi ekki að ráða í þær stöður sem HSA þurfi að manna þá verði að leita leiða til að sinna henni með öðrum hætti. Sálfræðiviðtöl í gegnum skype-forritið og fjarþjónusta í gegnum síma séu dæmi um leið sem hafi verið reynd. Reynslan hafi sýnt, í Kanada og víðar, að slík úrræði létti á álagi og sé mikið notað í dreifðum byggðum.