Fá ekki rekstrarstyrki vegna breytinga

12.01.2016 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: 360°  -  Já
Ástæða þess að skáldahúsin þrjú á Akureyri hafa ekki fengið rekstrarstyrki frá árinu 2011 er sú að 2012 var meðferð og ákvörðun styrkja breytt. Þetta segir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra í svari við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar. Að auki hafi fjárveitingar til menningarmála á Akureyri samkvæmt samningi ríkis og bæjar verið eyrnamerktar Leikfélagi Akureyrar, Listasafni Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Brynhildur lagði fram fyrirspurn á Alþingi fyrir jól og birtist svar ráðherra á vef Alþingis í dag. Hún spurði hví Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir hefðu ekki fengið rekstrarstyrki frá ríkinu síðustu ár. Ráðherra sagði að breytingin frá 2012 hefði meðal annars falið í sér að ráðuneyti myndu einungis úthluta styrkjum sem falli undir málasvið þeirra ef þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Því hefði beiðni Minjasafns Akureyrar um rekstrarstyrk fyrir skáldahúsin þrjú verið synjað. Um það leyti var ákveðið að stofn- og rekstrarstyrkir yrðu veittir innan menningarsamninga þar sem landshlutasamtökum væri úthlutuð fjárhæð til ráðstöfunar. Hver og ein landshlutasamtök réðu úthlutun á sínu svæði.

Brynhildur spurði ráðherra hvort hann teldi að jafnræðis væri gætt þegar kæmi að úthlutun ríkisfjár til höfundasafna. Hann svaraði því til að Minjasafnið á Akureyri, sem skáldasöfnin heyra undir, hefði fengið tæpar þrettán milljónir króna í styrki úr safnasjóði síðustu fjögur árin. Sumir styrkjanna hefðu verið sérstaklega ætlaðir til verkefna á vegum skáldasafnanna. Ráðherra rekur í svari sínu ólík tengsl ríkis og skáldasafna í gegnum samninga. Þannig væru Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Snorrastofa í Reykholti og Laxnesssafn að Gljúfrasteini rekin á landi í eigu ríkisins. Illugi svarar því til að Þórbergssetur að Hala í Austur-Skaftafellssýslu væri á stað sem væri skilgreindur sem brothætt byggð. Því hefðu stjórnvöld viljað styrkja svæðið á undanförnum árum með sérstökum samningi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV