Fá ekkert í hausinn í næsta Suðurlandsskjálfta

11.02.2016 - 21:26
112 dagurinn, 11. febrúar er tileinkaður almannavörnum í ár. Kastljós fékk af því tilefni að kíkja í neyðarkassann hjá Guðrúnu Jóhannesdóttur, verkefnisstjóra hjá almannavörnum og tók auk þess hús á þeim Hermanni og Guðmundu Auði á Selfossi. Heimili þeirra er fullt af skrautmunum, myndum og leirtaui - en það er engin hætta á því að þau fái neitt af því í hausinn í næsta Suðurlandsskjálfta.

Það eru ekki allir jafn forsjálir og hjónin á Engjaveginum. Skrautmunir eru festir niður með kennaratyggjói, skápar og hillur festir í vegg, leirtau er í skápum með rennihurðum sem ekki opnast við högg og stærri myndir hengdar á króka svo þær geti ekki dottið. Þau eru líka tilbúin með vasaljós og rafhlöðuknúið útvarp. Guðmunda segist vera jarðskjálftahrædd þótt hún sé borin og barnfæddur Sunnlendingur. Þeirra útbúnaður miði fyrst og fremst að því að enginn slasist fremur en að bjarga verðmætum. 

Guðrún Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá almannavörnum bendir einnig á að gott sé að hafa nokkurs konar neyðarkassa við höndina þegar hamfarir verða. Oft þarf að yfirgefa heimilið í skyndingu, eða búa við rafmagns-, sambands - og vatnsleysi um einhvern tíma. 

Guðrún tíndi sitt hvað upp úr sínum kassa: Teppi, snæri, síma og bílhleðslutæki, skyndihjálparkassa, skrúfjárn, skóflu sem einnig má nota sem hamar og upptakara, þurrmat, minnislykil með mikilvægum gögnum, penna og blað, plastpoka og ýmislegt fleira. Hún hvetur Íslendinga til að hafa svona kassa á aðgengilegum og vísum stað á heimilinu, rétt eins og útileguviðbúnað, sem gæti þurft að grípa til með litlum eða engum fyrirvara.

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós