Fá annað tækifæri á að kaupa miða á EM leikina

02.03.2016 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Knattspyrnusamband Íslands
Fótboltaunnendur sem ekki gátu keypt miða á leiki Íslands á Evrópumótinu í knattspyrnu í sumar fá annað tækifæri til miðakaupa. Íslendingar sóttu um tæplega 27 þúsund miða á leiki Íslands og fengu 5 prósent umsækjenda synjun.

Þetta á við um þá umsækjendur sem fengu synjun á umsókn sinni vegna þess að kreditkortagreiðsla fór ekki í gegn. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, gefur þessum umsækjendum annað tækifæri á að ganga frá kaupum á miðum en þetta stendur ekki í boði fyrir þá sem skráðu sig ekki á miðasöluvef UEFA fyrir tilskildan tíma í janúar. Það er að segja, þeir sem reyndu ekki að kaupa miða fyrir 18. janúar eiga ekki möguleika á að kaupa miða núna. 

UEFA mun hafa beint samband við þessa umsækjendur og skýra næstu skref. Á vef KSÍ segir að hluti þeirra miða sem eru í boði séu í sæti með skertu útsýni.