Eyrarsundslestir stoppa ekki á Kastrup

17.01.2016 - 06:30
epa05087439 Security staff check IDs at Kastrups train station outside Copenhagen, Denmark, 04 January 2016. Identity checks went into effect for  travellers from Denmark to Sweden as part of measures to reduce the flow of migrants into Sweden. Passengers
 Mynd: EPA  -  TT NEWS AGENCY
Örtröð á brautarpöllunum á Kastrup í Danmörku veldur því að Eyrarsundslestir á leið frá Malmö til Kaupmannahafnar bruna þar í gegn án þess að stoppa. Þetta veldur fjölda fólks sem á erindi á flugvöllinn töluverðum töfum og umstangi. Örtröðin á pöllunum er rakin til vegabréfaeftirlitsins sem þar er búið að koma á að kröfu Svía. Samkvæmt áætlun ættu allar Eyrarsundslestir sem aka milli Svíþjóðar og Danmerkur að stoppa á lestarstöðinni undir alþjóðaflugvellinum á Kastrup.

Sé lest orðin eða stefni í að verða meira en fimm mínútum á eftir áætlun er henni hins vegar ekið framhjá flugvellinum og beint til Kaupmannahafnar, samkvæmt vinnureglum dönsku járnbrautanna, DSB. Jótlandspósturinn greinir frá þessu. Ekki er vitað með vissu hve oft Eyrarsundslestir bruna framhjá Kastrup. Tony Bispeskov, upplýsingafulltrúi DSB, segir það gerast á degi hverjum. Um fjórar milljónir Svía fljúga frá Kastrupflugvelli á ári hverju, auk þess sem fjöldi Svía vinnur þar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV