Eyjamenn fá grænt ljós til að reka Herjólf

29.08.2017 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engar „sýnilegar eða augljósar hindranir“ standa í vegi fyrir því að ríkið semji við Vestmannaeyjabæ um rekstur farþegaferju eins og Herjólfs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að lögfræðilegri álitsgerð sem kynnt var á fundi bæjarráðs í morgun. Þá lagðist bæjarráð eindregið gegn því að skip yrði tekið af öðrum byggðarlögum þegar Herjólfur fer í slipp um miðjan næsta mánuð.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, vildi ekki afhenda drögin þar sem þau væru enn vinnuskjal.

Í bókun bæjarráðs kemur fram að bæjaryfirvöld hafi máli sínu til stuðnings nefnt að á þessu ári hafi komið upp tilvik þar sem biðlisti til að komast með bifreiðar til og frá Vestmannaeyjum hafi numið allt að fimm dögum.  

Hráefni hafi skemmst þar sem það komst ekki á milli lands og Eyja, stórir ferðahópar hafi neyðst til að afpanta bókanir vegna takmarkaðs framboðs ferða „og heimafólk upplifi að á tímum sé nánast vonlaust að ætla að ferðast að heiman og heim aftur. “

Bæjaryfirvöld hafi með vísan til þessa lýst eindregnum áhuga á því að taka yfir rekstur Herjólfs með „að markmiði að hann verði rekinn með heildarhagsmuni Vestmannaeyja í huga en ekki eingöngu hámarks nýtingu í hverri ferð og arðsemi,“ segir í bókun bæjarráðs. 

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hefur tekið vel í þær hugmyndir Eyjamanna að þeir taki við rekstri ferjunnar. „Ég er mjög jákvæður fyrir því að við skoðum alla möguleika í útfærslum á rekstri skipsins, ég tel reyndar að það geti verið mjög jákvætt í mörgu tilliti að þetta sé rekið af Eyjamönnum sjálfum með einhverjum hætti í samvinnu með okkur,“ sagði Jón í samtali við fréttastofu fyrr í sumar.

Þetta var reyndar ekki eina Herjólfs-tengda málið sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í morgun. Því á fundinum kom fram að ekki væri búið finna afleysingaskip fyrir Herjólf en skipið þarf að fara aftur í slipp um miðjan næsta mánuð.  

Bæjarráðið ítrekaði að ekki komi til greina, á neinum tíma, að skip verði fengið til afleysingar fyrir Herjólf sem ekki hefur fullt haffæri til siglinga bæði í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn.  „Þá leggst bæjarráð eindregið gegn öllum lausnum sem fela það í sér að skip verði tekið af öðrum byggðarlögum hér við land til að nýta í Vestmannaeyjum.“