Eyjamenn æfir vegna norska afleysingarskipsins

13.09.2017 - 17:57
Mynd með færslu
Baldur mátti ekki sigla til Þorlákshafnar og það má norska ferjan Röst ekki heldur.  Mynd: Sighvatur Jónsson  -  RÚV
Bæjarráð Vestmannaeyja segist hafa frétt af því í fjölmiðlum að norska ferjan, sem á að leysa Herjólf af þegar hann fer í slipp, gæti ekki siglt til Þorlákshafna. Eyjamenn verði að hætta að vera áhorfendur að ákvörðunum um samgöngur og taka í staðinn fulla ábyrgð á rekstri þeirra.

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur ítrekað bókað um það á fundum sínum að ekki komi  „á neinum tíma til greina að skip verði fengið til afleysingar fyrir Herjólf sem ekki hefur fullt haffæri til siglinga bæði í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn,“ eins og lesa má um í bókun bæjarráðs frá í lok ágúst. 

Herjólfur þarf að fara í slipp um miðjan þennan mánuð vegna óvæntra skemmda sem komu í ljós þegar skipið var síðast í viðgerð. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir að viðgerðin taki 19 daga.

Í gær greindi Vegagerðin frá því að norska ferjan Röst, sem hefur verið fengin til að leysa Herjólf af, hefði ekki heimild til að sigla til Þorlákshafnar. „Þess vegna er lögð áhersla á að stytta tímann sem Herjólfur verður í viðgerð svo sem kostur er,“ segir á vef Vegagerðarinnar sem telur að ekki muni reyna á siglingar til Þorlákshafnar nema eitthvað óvænt komi upp á veðurfarslega séð.

Hljóðið í bæjarráði Vestmannaeyja var þungt þegar það tók málið fyrir á fundi sínum í gær og bæjarráðsfulltrúar kvörtuðu undan því að hafa lesið um málið í fjölmiðlum. „Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um það hvernig standa skal að flutningum á fólki, vörum og öðrum aðföngum ef til þess kemur að ölduhæð verði þannig að ekki verði hægt að sigla í Landeyjahöfn þennan tíma.“

Bæjarráð lætur ekki staðar numið þar því það bendir einnig á að afleysingarskipið norska geti bæði flutt færri bíla og farþega. [Þ]ví er þess krafist að ferðum verði fjölgað umfram það sem annars væri og því eðlilegt að sumaráætlun verði látin gilda þar til Herjólfur kemur úr viðgerð.“

Bæjarráð hvetur að endingu þingmenn Suðurkjördæmis til að láta málið til sín taka enda hafi samgönguöryggi Eyjamanna verið skert með þessu.