Eyjabörn efla tengslin

17.05.2017 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Hannesdóttir/Hrund Tei
Skemmtilegt samstarf hefur myndast á milli skólanna tveggja í Grímsey og Hrísey. Skólarnir eru fámennir og til að efla tengslin og auka fjölbreytni í náminu, skiptast nemendurnir á heimsóknum.

Í síðustu viku komu sjö nemendur og tveir kennarar úr Grímseyjarskóla í heimsókn í Hríseyjarskóla. Grímseyingarnir dvöldu í Hrísey í þrjár nætur, börnum úr báðum skólum var blandað í bekki og brugðið var út af hefðbundinni kennslu.

Þessi samvinna skólanna hófst á síðasta ári og er heimsóknin liður í auknu samstarfi þeirra. Báðir skólarnir eru orðnir mjög fámennir og glíma við sömu vandamál sem því fylgja. 

Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri Brothættra byggða í Hrísey og Grímsey, segir að heimsóknin til Hríseyjar hafi heppnast vel og hafi styrkt mjög böndin milli skólanna. Stefnt er að því að því að krakkar og kennarar úr Hríseyjarskóla fari í heimsókn til Grímseyjar í næstu viku og dvelji þar í tvær nætur.

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV