Eyðilögð afmælisferð og nótt á flugvelli

19.08.2017 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson  -  RÚV
Samgöngustofa hefur í sumar úrskurðað í 3 málum gegn WOW air þar sem bótakröfum farþega er hafnað. Í öllum málunum skilaði farangur farþeganna sér ekki á tilskyldum tíma. Þannig sögðu hjón sem fóru í afmælisferð til Rómar að mistök flugfélagsins hefði eyðilagt afmælisferðina þeirra, franskur ferðalangur neyddist til að sofa á gólfinu á Reykavíkurflugvelli og farangur Íslendings var sendur heim til hans, tveimur dögum áður en hann átti bókað far heim.

Morgunblaðið greindi í gær frá máli hjóna sem fóru til Rómar en fengu farangur sinn ekki fyrr en fimm dögum eftir komuna til ítölsku höfuðborgarinnar.  WOW bauð hjónunum bætur upp á rúmar 43 þúsund krónur en hjónin lögðu fram ljósrit af greiðslukvittunum upp á 817 evrur eða rúmar 100 þúsund krónur.

Flugfélög borga ekki dýrar merkjavörur

WOW svaraði kvörtun hjónanna og sagði að bæturnar sem það hefði boðið þeim væru meira en nóg. Flugfélaginu bæri vissulega skylda til að greiða bætur fyrir kostnað sem farþegar þurfi að greiða fyrir nauðsynlega hluti. Það veiti farþegum ekki rétt til að fara í hvaða verslun sem er og kaupa sér dýrar merkjavörur sem hægt sé að kaupa í annarri verslun á lægra verði.

Hjónin svöruðu þessu erindi flugfélagsins og sögðu að þetta hefði eyðilagt ferðina. Hún hefði verið afmælisgjöf frá börnunum þeirra. Þau hefðu þurft að kaupa sér lyf og hleðslutæki fyrir farsímana. Á þriðja degi hafi þau ætlað að halda upp á stórafmæli með því að fara á tónleika á flottum veitingastað og síðan á tónleika eftir á. Og því þurft að kaupa sér betri fatnað til að vera í við tilefnið.  

Til að bæta gráu ofan á svart hafi þeim verið tjáð á fjórða degi Rómar-ferðarinnar að taskan væri loksins komin. Þau hafi því haldið sig í grennd við hótelið allan daginn. Taskan hafi þó ekki skilað sér fyrr en næsta dag.  Þau hafi því orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni og ekki sé hægt að kaupa það sem til þarf fyrir upphæðina sem WOW bauð.

Samgöngustofa hafnaði bótakröfunni og taldi hjónin ekki hafa sýnt fram á tjón sitt með fullnægjandi hætti. Af þeim gögnum sem þau hefðu lagt fram væri ekki ljóst í hverju kostnaður þeirra væri nákvæmlega fólginn.

Fatalaus Frakki á flugvelli

Mál hjónanna er þó ekkert einsdæmi því í byrjun síðasta mánaðar hafnaði Samgöngustofa einnig bótakröfu tveggja farþega WOW air sem fengu heldur ekki farangur sinn á réttum tíma.

Annar farþeginn var að koma frá Lyon til Íslands en farangur hans skilaði sér ekki til Keflavíkur fyrr en fjórum dögum eftir komuna til Íslands. Hann þurfti að leigja sér tjald og svefnpoka og krafði WOW um rúmar 100 þúsund krónur, sagðist hafa þurft að sofa á gólfi Reykjavíkurflugvallar því öll hótelherbergi í borginni voru upptekin.

WOW féllst á að greiða manninum rúmar 23 þúsund krónur vegna leigunnar á tjaldi og svefnpokum og kostnaði vegna gistinátta á tjaldstæði. Samgöngustofa taldi manninn ekki eiga rétt á frekari bótum. Ekki væri hægt að rekja sundferðir og máltíðir sem tjón vegna farangurstafar og manninum hefði ekki tekist að sýna fram á tjón vegna gistingar á flugvellinum. 

Ætlaði í útilegu í Hollandi

Hinn farþeginn fór með WOW frá Keflavík til Amsterdam en farangur hans skilaði sér aldrei. Farangurinn var þó sendur heim til hans tveimur dögum áður en hann átti bókað flug til baka til Íslands.  Hann sagði í kvörtun sinni að hluti ferðalagsins hafi verið útilega sem hafi því kallað á töluverðan útlagðan kostnað og lýsti yfir óánægju sinni varðandi samskipti við WOW og þann tíma sem fór í þau. 

WOW bauðst til að greiða manninum farangursheimildir mannsins auk endurgreiðslu á fatakaupum, tæpar 12 þúsund krónur. Samgöngustofa hafnaði síðan kröfu farþegans um frekari bætur þar sem hann hefði ekki sýnt fram á annað tjón.

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV