Eurovision mögulega færð til Berlínar

05.04.2017 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: ITU Pictures
Ingrid Deltenre, framkvæmdastjóri EBU, Sambands útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu, kann að hafa talað af sér í símagabbi tveggja rússneskra hrekkjalóma. Þar á hún að hafa sagt að Eurovision, sem til stendur að halda í Kænugarði í vor, verði flutt til Berlínar í Þýskalandi ef fulltrúa Rússlands í keppninni, Yuliu Samoylovu, verður meinuð þátttaka í keppninni. 

ESCtoday hefur þetta eftir rússneskum vefmiðlum.

Samkvæmt fréttinni lét Deltenre ummælin falla í þeirri trú að hún væri að ræða við forsætisráðherra Úkraínu, Volodymyr Groysman. Í samtalinu sagði hún að það væri óásættanlegt ef komið yrði í veg fyrir þátttöku ákveðinna keppenda. Hún bætti því við að orðstír Úkraínu yrði svertur ef Yulia Samoylova fengi ekki að koma til Kænugarðs í Úkraínu. Ef svo færi, myndi keppnin verða færð til Berlínar, þar sem undirbúningur sé þegar vel á veg kominn.

Úkraínu settir afarkostir

Söngvakeppnin á að fara fram þrettánda maí og átti Samoylova að flytja þar framlag Rússlands í keppninni, „Flame is burning“.

In this photo taken on Tuesday, March 14, 2017, Russian singer Yulia Samoylova who was chosen to represent Russia in the May 11-13 Eurovision Song Contest being held in the Ukrainian capital Kiev, poses while sitting in a wheelchair at Sheremetyevo
 Mynd: AP
Yulia Samoylova, fulltrúi Rússlands í Söngvakeppni evrópskrar sjónvarpsstöðva 2017.

Úkraínsk stjórnvöld bönnuðu söngkonunni að koma til landsins í þrjú ár á dögunum, vegna þess að hún tók þátt í hátíðartónleikum á Krímskaganum, sem er undir yfirráðum Rússa, fyrir tveimur árum.

Ingrid Deltenre sendi Volodymyr Groysman, utanríkisráðherra Úkraínu, bréf í síðustu viku þar sem hún sagði það ólíðandi að Eurovision sé notað sem peð í pólitísku tafli ríkjanna. Bannið væri óásættanlegt og héldi Úkraína því til streitu verði úkraínska ríkissjónvarpinu meinuð þátttaka í keppninni næstu ár.