„Euphoria hefur ekki glatað ljóma sínum“

04.02.2016 - 17:27
Sænska söngkonan og Eurovision-stjarnan Loreen er væntanleg til landsins í mánuðinum. Hún kemur fram á lokaæfingu Söngvakeppninnar, 20. febrúar, í Laugardalshöll. Loreen hlakkar til komunnar og segist enn fyllast ánægju þegar hún sér sæluna í andlitum áheyrenda sinna, þegar hún flytur lagið sem færði henni sigurinn í Eurovision fyrir fjórum árum.

Loreen hefur áður komið til landsins. Hún dvaldi á Þingvöllum nokkra sumardaga þegar hún tók sér frí frá vinnu. „Ég á minn uppáhalds stað á Íslandi,“ segir hún og vonast til að geta nýtt tækifærið til að endurnýja kynnin við landið, þó dvölin sé stutt. „Ég elska Ísland! Ég elska hreiminn sem skín í gegn þegar þið talið ensku og ég er gríðarlegur áðdáandi Bjarkar.“

Önnur lög eiga erfitt með að brjótast í gegn

Loreen er ein stærsta stjarna Eurovision frá upphafi. Hún vann yfirburðarsigur þegar Eurovision var haldið í Baku í Azerbaijan 2012. Lagið fékk 12 stig frá 18 þjóðum og fékk samtals 372 stig, sem er næsthæsta stigaskor frá upphafi keppninnar. Í kjölfar Eurovision sendi Loreen frá sér plötuna Heal árið 2012 og næsta plata, Paperlight, er tilbúin. Paperlight hefur ekki enn komið út en nokkur lög af henni hafa ratað í spilun.

Sigurinn hefur eðlilega haft mikil áhrif á feril Loreen, hún neitar því ekki. „Kærleikurinn hefur verið mikill ... Það eina neikvæða við þetta er að allt sem ég geri er borið saman við „Euphoria“, þar sem lagið hefur enn ekki glatað ljóma sínum. Sem gerir hinum lögunum erfitt fyrir að brjótast í gegn.“

Loreen játar að það geti haft áhrif á sjálfstraustið. „Það kemur fyrir. Ég get auðvitað ekki sagt að ég sé ekki með neitt sjálfsálit; meira að segja Jesús var með sjálfsálit.“

Þreytist ekki á að syngja lagið

Hún lítur ekki á „Euphoria“ sem lagið „hennar“ – það virðist allir hafa hlutdeild í því. „Það verður til þessi ótrúlega samheldni í hvert skipti sem ég flyt lagið. Ég held að það sé vegna þess að það er ekki bara lag. Það stendur fyrir svo margt og skar sig líklega úr á sínum tíma. Ég hef enn ekki þreyst á að syngja það, því ég veit hver viðbrögð áheyrenda verða – og hver mín viðbrögð verða. Maður getur lesið það í andlitum fólks, hve glatt það verður þegar það heyrir lagið.“

Aðdáendur hennar hér á landi fá tækifæri til að upplifa sæluvímuna í Laugardalshöll, á fyrrnefndri lokaæfingu Söngvakeppninnar, sem fer fram 20. febrúar. Rætt var við Loreen í Síðdegisútvarpinu.

Mynd með færslu
Davíð Kjartan Gestsson
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi
Söngvakeppnin