ESB segir Grikki ekki standa sig

27.01.2016 - 17:51
epa05057070 Migrants, who came from Turkey, about to land from their overloaded rubber dinghy as they arrive at the coast near Mytilene, Lesbos island, Greece, 06 December 2015. France and Germany are calling for the deployment of EU border agents to
 Mynd: EPA  -  MTI
Grikkland hefur alvarlega vanrækt skuldbindingar sínar um umsjón og gæslu á ytri landamærum Schengen-svæðisins og verður að gera úrbætur. Þetta segir breska útvarpið BBC að komi fram í nýrri skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

BBC segir að í skýrslunni sé sagt frá könnun í nóvember sem leitt hafi í ljós að margir flóttamenn og hælisleitendur sem komið hafi til Grikklands hafi ekki verið skráðir, bakgrunnur þeirra hafi ekki verið kannaður og ekki tekin af þeim fingraför.

Mælt sé með að Grikkir fái þrjá mánuði til að gera úrbætur, ef ekki komi til greina að önnur Schengen-ríki taki tímabundið upp landamæraeftirlit á ný til að bregðast við flóttamannavandanum. Nokkur Evrópuríki, þar á meðal Austurríki og Ungverjaland, hafi þegar tekið upp slíkt eftirlit til að draga úr straumi flóttamanna þangað og norður á bóginn.

Að sögn BBC verða Schengen-ríki að leggja blessun sína yfir skýrsluna áður en hægt verði að setja Grikkjum skilyrði. Hún sé alvarleg áminning til grískra stjórnvalda um aukið og hert landamæraeftirlit. 

BBC segir að á liðnu ári hafi meira en 850.000 flóttamenn og hælisleitendur komið til Grikklands. Síðan um áramót hafi um 44.000 siglt til grískra eyja frá Tyrklandi.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV