ESB og Tyrkir funda í mars

19.02.2016 - 04:22
epa05001507 EU Council President Donald Tusk prior to a meeting in Brussels, Belgium, 29 October 2015.  EPA/OLIVIER HOSLET
Donald Tusk.  Mynd: EPA
Evrópusambandið heldur sérstakan fund um málefni flóttamanna með Tyrklandi snemma í mars. Næstu skref varðandi samning um neyðaraðstoð við flóttamenn í Tyrklandi verða rædd á fundinum að sögn Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB.

Tusk ræddi við fréttamenn eftir fund Evrópusambandsríkja í gærkvöld. Hann sagði leiðtogana sammála um að samingurinn við Tyrki væri algjört forgangsatriði. Allt verði gert til þess að samningurinn gangi upp. Því hafi þeir ákveðið að koma á fundi með Tyrkjum í byrjun mars. Leiðtogar 11 Evrópuríkja ætluðu að setjast niður með Tyrkjum fyrir fundinn í gærkvöld en honum var frestað vegna sprengjuárásarinnar í Ankara á miðvikudag.

Þrýstingur á efndir samningsins, sem skrifað var undir í nóvember, hefur aukist. Þúsundir flóttamanna reyna enn að fara yfir Eyjahafið til Grikklands á hverjum degi. Yfir milljón flóttamenn fóru þá leið í fyrra.

Samstarf við Tyrki eina leiðin

Jean-Claude Juncker, formaður framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, sagði á sama blaðamannafundi að gott samstarf við Tyrki væri eina leiðin til þess að koma í veg fyrir frekari ferðalög flóttamanna. Hann sagði jafnframt að leiðtogar Evrópusambandsríkja hafi andmælt einhliða aðgerðum á borð við þær sem Austurríki boðaði á miðvikudag. Þá sagði Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis að aðeins yrði tekið á móti 80 hælisumsóknum á dag. Flóttamannaráð Evrópusambandsins sagði það stríða gegn lögum ESB og Austurríki skyldi endurskoða ákvörðunina.

Ríki í mið-Evrópu hafa greint frá því að þau ætli að þrýsta á harðara eftirlit við landamæri á Schengen svæðinu ef árangur næst ekki í samstarfi við Tyrki. AFP fréttastofan hefur eftir erindreka eins ríkjanna að fjöldi flóttamanna frá Tyrklandi þurfi að fækka úr tæplega 2.000 á dag niður í nokkur hundruð.