„Erum ekki uppfull af reiði og heift“

19.01.2016 - 12:26
Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar Birgissonar sem var myrtur af Atla Helgasyni árið 2000, segir fjölskylduna ekki hafa fyrirgefið Atla og það sé ekki á leiðinni. Morðið á syni hans hafi komið verulega niður á fjölskyldunni. Honum finnst að líta eigi til þess hvers eðlis brotið var þegar mönnum sé veitt uppreist æru.

Kastljós greindi frá því í gærkvöld að Atli Helgason, sem var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Einari Erni, sæktist eftir að fá lögmannsréttindi sín aftur eftir að hafa verið veitt uppreist æru.  Til þess þarf hann að fá meðmæli frá Lögmannafélagi Íslands og standast þar próf. 

Í Fréttablaðinu í morgun var eftir Birgi Erni, föður Einars Arnar, að fréttirnar af Atla hefðu verið eins og blaut tuska í andlitið. Hann sagði í samtali við fréttastofu að sonur hans hefði verið látinn vita af fréttinni í gær og að hún hefði komið þeim í opna skjöldu. 

Birgir rifjar upp hvernig Atli hagaði sér eftir morðið - málsvörn hans hafi byggst á því að þetta hefði verið slys, hann hafi sótt minningarathöfn um Einar Örn og tekið þátt í leitinni að honum eftir að hafa framið morðið.

Birgir segist ekki ná því ef Lögmannafélag Íslands telji sig hafa not fyrir mann með dómgreind eins og Atla. Lítið samræmi sé  í því að Atli hafi verið dæmdur í 16 ára fangelsi og setið 10 ár inni þegar hollensk kona hafi verið dæmd í 12 ára fangelsi fyrir að vera burðardýr. 

Honum finnst að horfa eigi til eðli þeirra brota sem menn hafi framið þegar þeim sé veitt uppreist æru. Birgir segir það ekki á leiðinni hjá fjölskyldunni að fyrirgefa Atla. „En við erum ekkert uppfull af reiði og heift út í hann.“