„Erum að skoða hvað við getum gert í stöðunni“

15.02.2016 - 20:40
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans sagði í viðtali í Kastljósi nú í kvöld að til skoðunar væri að rifta sölunni á Borgun og leggja fram kæru vegna málsins. Ekki liggi þó fyrir hvað gert verði. Aðspurður hvort forsvarsmenn bankans líti svo á að þeir hafi verið blekktir, sagði Steinþór: „Það er sterkt orð. Okkur hefði þótt eðlilegt að það hefði verið gert grein fyrir þessu á þessum tíma. Það var ekki gert.“

Landsbankinn seldi 31,2% hlut í kortafyrirtækinu Borgun fyrir tæpa 2,2 milljarða króna í lok árs 2014. Salan hefur verið gagnrýnd, bæði vegna þess að hluturinn var ekki seldur í opnu söluferli og vegna þess að kortafyrirtækið á nú von á hátt í fimm milljarða króna valréttargreiðslu vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe, sem ekki var gert ráð fyrir í kaupsamningnum.

Við erum þarna grandalaus um það að þessi réttindi séu til staðar.

Sagði Steinþór í viðtali við Helga Seljan.

Aðspurður hvers vegna ekki hafi verið farið með málið til dæmis til sérstaks saksóknara, ef Landsbankinn telji að blekkingum hafi verið beitt, sagði Steinþór að það væri eitthvað sem verið væri að skoða.

Spurður um traust almennings til Landsbankans, benti Steinþór á að í upphafi árs 2010 hafi verið útlit fyrir að eigið fé bankans myndi minnka ört vegna dóma um gengistryggð lán. Í dag sé Landsbankinn hins vegar í mjög góðri stöðu, með mikið eigið fé og búinn að greiða mikið út í arð. Bankinn standi vel.

Steinþór sagðist ekki hafa íhugað að hverfa frá störfum vegna málsins.