Erill hjá slökkviliði í morgun

09.01.2016 - 07:16
Slökkvibíll í Bergstaðastræti
 Mynd: Hallgrímur Indriðason  -  RÚV
Talsverður erill var hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu snemma í morgun. Bílar voru sendir í þrjú útköll vegna bruna og reyks frá því klukkan var að verða fimm þar til á sjöunda tímanum.

Slökkvibíll var sendur að Köllunarklettsvegi um fimm leytið í nótt vegna sinuelds. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Skömmu síðar var bíll kallaður út vegna reyks í íbúð í Þingholtunum. Nágrannar heyrðu í reykskynjara innan úr íbúðinni og hringdu í slökkviliðið. Slökkviliðsmenn urðu að berja fast á dyr til þess að vekja íbúana sem voru í fasta svefni. Reykurinn reyndist koma úr bakaraofni og tók um tíu mínútur að reykræsta íbúðina að sögn varðstjóra slökkviliðsins. Íbúana sakaði ekki og þurftu þeir ekki að fara úr íbúðinni.

Nánast um leið og því verkefni var lokið var hringt vegna sinubruna úti við Gróttu. Eldurinn náði ekki yfir mjög stórt svæði og gekk vel að slökkva hann.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV