Erfiðast að geta ekki sinnt barninu sínu

17.02.2016 - 20:29
Gerður Árnadóttir
 Mynd: Kastljós
Áralöng umönnun sem aðstandendur fólks með þroskahömlun sinna getur reynt mjög á fjölskyldur og jafnvel valdið heilsubresti. Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir, hafði lengi reynt að fá úrræði fyrir son sinn en þrátt fyrir skilning innan kerfisins gekk það illa. Hún veiktist vegna álags og var frá vinnu í margar vikur.

Sonur hennar var með þroskahömlun, einhverfu og ofvirkni en greindist svo með flogaveiki.

Og þá verður allt miklu flóknara. Hann fékk flog oft og oft á nóttinni og það gekk illa að meðhöndla. Þannig að allt í einu breyttist okkar verkefni þannig að við vorum alltaf á vaktinni. 

Formaður Þroskahjálpar segir að samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aukið fjármagn í málefni fatlaðra sé jákvætt skref en svo virðist sem húsnæðismálin séu skilin eftir.

Og ég veit ekki alveg hvað mönnum gengur til og hvort þeir ætli sér virkilega að láta þá fólkið sem er kannski búið að bíða eftir húsnæði bíða bara ennþá lengur. Og þá hugsar maður, eiga þau að flytja inn á hjúrkunarheimili með foreldrum sínum? 

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur undir það að átak þurfi í húsnæðismálum þótt hann fagni samkomulaginu.

Þannig að við þurfum eitthvað meira til en það og þess vegna bind ég vonir við að húsnæðisfrumvörpin verði orðin að lögum í vor en það er mikil vinna eftir fram að því. 

Kastljós kallaði eftir upplýsingum frá öllum sveitarfélögum á landinu um þjónustu við fólk með þroskahömlun. Staðan virðist afar misjöfn eftir sveitarfélögum en eðli málsins samkvæmt eru húsnæðismálin þungur baggi á reykjavíkurborg enda flestir skjólstæðingar þar. Samkvætm tölum frá Velferðarsviði eru 137 á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði en aðeins 215 rými eru í boði í dag.

Mynd með færslu
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Kastljós