Erfiðar viðræður framundan í Brussel

18.02.2016 - 12:19
epa04826211 European Commission President Jean-Claude Juncker during a news conference at the EU Commission headquarters in Brussels, Belgium, 01 July 2015. Officials from Greece and the European Union confirm that the Greek government sent a new proposal
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  Mynd: EPA
Kröfur Breta um umbætur á Evrópusambandinu eru efst á á baugi á leiðtogafundi ESB sem hefst í Brussel í dag. Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, kveðst sannfærður um að Bretland verði áfram í sambandinu. þótt enn séu nokkur ágreiningsefni óleyst. Tusk, forseti leiðtogaráðsins, telur hins vegar alls ekki sjálfgefið að samkomulag náist.

Búist er við að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin í Bretlandi í sumar um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu. Áður en að því kemur ætlar David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að freista þess að knýja fram umbætur á sambandinu. Þeirra helstar eru takmarkanir á bótagreiðslum til farandverkafólks, undanþágur frá frekari Evrópusamruna, skýr ítrekun á að evran sé ekki eini gjaldmiðill sambandsins og að dregið verði úr útgáfu nýrra lagareglna.

Drög að úrbótum voru kynnt í byrjun mánaðarins en verkefni ESB-leiðtoganna næstu tvo daga er að útfæra þau nánar og leggja blessun sína yfir þau. Á blaðamannafundi í Brussel í morgun kvaðst Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, vongóður um að samkomulag næðist á leiðtogafundinum, þrátt fyrir að ýmis ágreiningsefni væru ennþá óleyst væri hann sanfærður um að Bretland yrði áfram í sambandinu.

Í gær var aftur á móti haft eftir Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, að það væri alls ekki sjálfgefið að samkomulag næðist sem dygði til að halda Bretum í sambandinu, um sum mál væri ennþá ágreiningur. Þar vísar Tusk að líkindum til takmarkana á bótagreiðslum sem vitað er að Pólverjar og fleiri ríki Austur-Evrópu hafa efasemdir um.

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagði ræðu í franska þinginu í gær að það yrði Evrópusambandinu mikið áfall gengju Bretar úr skaftinu. Hins vegar gætu aðildarríkin ekki valið úr Evrópulöggjöfinni eins og þeim hentaði.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kvaðst hins vegar hafa skilning á ýmsum kröfum Breta þegar hún ávarpaði sambandsþingið í Berlín í gær, til dæmis ætti ákvörðunarvald um tilhögun almannatrygginga heima í aðildarríkjunum sjálfum, ekki Brussel.