Erfið færð í borginni og á Suðurlandi

12.01.2016 - 07:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Reynir Örn
Færð í íbúðargötum á höfuðborgarsvæðinu er víða erfið eftir ofankomu og mikinn skafrenning í nótt. Sérstaklega í efri og ytri byggðum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru öll snjómoksturstæki kölluð út klukkan fjögur í nótt. Tafir eru á flestum leiðum Strætó.

Einn bíll var að störfum í snjómokstri í efri byggðum borgarinnar í alla nótt. Helstu leiðir í borginni eru færar en umferð gengur hægt á stofnbrautum. Fólk ætti því að gera ráð fyrir lengri ferðatíma. 

Búið er að opna veginn um Þrengsli en Hellisheiði er enn lokuð vegna ófærðar. Búið er að opna Suðurstrandarveg og Mosfellsheiði. Ófært er innanbæjar á Selfossi og öðrum þéttbýliskjörnum sunnanlands að sögn lögreglunnar á Suðurlandi. Slæm færð er um mestallt Suðurland, þæfingsfærð víða og sums staðar þungfært en mokstur er hafinn.

Seinkun var á skólaakstri á Eyrarbakka og Stokkseyri í morgun. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðum skólanna.

Veðurhorfur í dag og kvöld:
Norðan og norðaustan 5 til 13 metrar á sekúndu. Víða él, en léttir til á Suður- og
Suðvesturlandi í dag. Frost eitt til tólf stig, kaldast í innsveitum. Áfram norðanátt með ofankomu fyrir norðan og austan á miðvikudag og fimmtudag, en á föstudag eru horfur á stilltu og björtu veðri með talsverðu frosti á landinu. Um helgina er útlit fyrir suðlæga átt með hlýnandi veðri.

Uppfært kl 08:24.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV