Erdogan vill endurskilgreina hryðjuverk

15.03.2016 - 05:52
epa05187821 Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaks at the Presidential palace in Abidjan, Ivory Coast, 29 February 2016. President Erdogan is on an official two-day visit to Ivory Coast.  EPA/LEGNAN KOULA
 Mynd: EPA
Recep Tayip Erdogan, Tyrklandsforseti, vill víkka lagalega skilgreiningu á hryðjuverkum og hryðjuverkamönnum all verulega, undir yfirskini stríðsins gegn hryðjuverkum og taka hart á þeim sem undir hana falla. Í ræðu sem forsetinn flutti í gærkvöldi, daginn eftir mannskæða sjálfsmorðssprengjuárás í höfuðborginni Ankara, sagði hann nauðsynlegt að endurskilgreina hryðjuverk og hryðjuverkamenn, þannig að hugtökin nái einnig yfir alla þá sem að hans mati styðja hryðjuverk og þá sem þau fremja.

Þar á meðal eru þingmenn, fræðimenn, blaðamenn og aðgerðasinnar. „Annað hvort er fólk með okkur í liði eða hryðjuverkamönnunum,“ sagði Erdogan, „þar er enginn millivegur.“ Forsetinn sagði engan mun á hryðjuverkamanni sem beitti byssu eða sprengju og hryðjuverkamanni sem notaði stöðu sína eða penna til að ganga erinda hryðjuverkamanna. Sú staðreynd að einhver sé hryðjuverkamaður breytist ekki þótt viðkomandi sé þingmaður, blaðamaður eða framkvæmdastjóri félagasamtaka.

Ljóst þykir að Erdogan beinir þessum ógnarorðum sínum ekki síst að Lýðræðisflokki fólksins, sem að stórum hluta er skipaður Kúrdum og styður málstað Kúrda leynt og ljóst. Þá er ekki langt síðan þeir Erdogan og Davutoglu, forsætisráðherra, höfðu í óbeinum hótunum við stjórnlagadómstól Tyrklands, sem á dögunum dæmdi fangelsun tveggja áhrifamikilla fjölmiðlamanna ólöglega og mælti fyrir um að þeir yrðu látnir lausir. Samtökin Blaðamenn án landamæra setja Tyrkland í 149. sæti á lista sínum yfir frelsi fjölmiðla í um 180 löndum heims. Þessi ræða Erdogans mun varla verða til að færa landið ofar á þeim lista.