Erdogan hótar hefndum

17.02.2016 - 21:26
Erlent · Asía · Evrópa · Hryðjuverk
epa05166818 Flames engulf vehicles following a car bomb detonation close to buildings of the Turkish military in Ankara, capital of Turkey, 17 February 2016. At least 18 people were killed and another 61 were injured in the attack, Ankara governor Mehmet
 Mynd: EPA
Tyrklandsforseti heitir hefndum vegna sprengjuárásarinnar í Ankara, höfuðborg Tyrklands, síðdegis. 28 hið minnsta létu lífið og 61 særðist.

Sprengjan sprakk í bifreið skammt frá þinghúsinu og fleiri opinberum byggingum, þar á meðal höfuðstöðvum tyrkneska hersins. Lest herbíla var ekið framhjá þegar sprengjan sprakk. Þykkan reyk lagði frá árásarstaðnum þar sem eldur kviknaði. Vitni segja að sprengingin hafi heyrst um alla borg.

Bekir Bozdag, varaforsætisráðherra Tyrklands, segir engan vafa á að árásin hafi verið hryðjuverk en árásir hafa verið tíðar í Tyrklandi síðustu mánuði. Í júlí létu 30 lífið í sjálfsvígssprengjuárás nærri landamærunum að Sýrlandi. Rúmlega hundrað manns létu lífið í sjálfsvígssprengjuárás á friðarfund í Ankara í október. Og í síðasta mánuði létust 10, flestir þýskir ferðamenn, í annarri sprengjuárás í Istanbúl. Í öllum tilvikum eru árásarmennirnir taldir hafa verið með tengsl við Íslamska ríkið.

Engin samtök hafa lýst árásinni í dag á hendur sér. Heimildir Reutersfréttaveitunnar segja að annað hvort hafi liðsmenn Íslamska ríkisins gert árásina eða liðsmenn Verkamannaflokks Kúrda, PKK.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hét hefndum vegna árásarinnar í dag. Hann sagði í yfirlýsingu sem birt var í kvöld að Tyrkir myndu verja hendur sínar.