Erdogan aðvarar þingmann sem krefst réttlætis

17.06.2017 - 14:41
Erlent · Asía · Evrópa
epa06029178 Turkey's main opposition Republican People's Party (CHP) leader Kemal Kilicdaroglu (C) and protesters hold placards reading 'Justice',  during a march from Ankara to Istanbul to call attention to arrests by Turkish courts,
 Mynd: EPA
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, varaði þingmann stjórnarandstöðunnar við því í dag að fyrirhuguð mánaðarlöng mótmælaganga hans vegna handtöku annars þingmanns gæti haft alvarlegar afleiðingar. Kemal Kilicdaroglu, formaður Lýðveldisflokksins, hóf á fimmtudag mótmælagöngu frá höfuðborginni Ankara að fangelsi í Istanbúl þar sem samflokksmanni hans, Enis Berberoglu, er haldið eftir að hann fékk 25 ára fangelsisdóm. Berberoglu var sakfelldur fyrir að afhenda dagblaði leyniskjöl.

Kilicdaroglu ætlar að ganga 450 kílómetra leið haldandi á spjaldi sem á stendur „Adalet“, sem þýðir réttlæti. Með því vill hann vekja athygli á fangelsun Berberoglus og framferði Erdogans sem hann sakar um að hafa staðið fyrir öðru valdaráni í Tyrklandi, eftir mislukkaða valdaránstilraun herforingja í fyrra. Síðan þá hefur fjölda hermanna, dómara, embættismanna, fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna verið vikið úr starfi eða þeir fangelsaðir. Ný stjórnarskrá sem felur forsetanum stóraukin völd var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjölda fólk hefur drifið að sums staðar þar sem Kilicdaroglu hefur farið um.

Erdogan gagnrýndi mótmælagöngu Kilicdaroglus í dag. Hann sagði það ekki vera þjóðinni til góðs að hvetja fólk til að fjölmenna út á götur til mótmæla. „Það færir þér ekki réttlæti að ráfa um með spjald sem á stendur réttlæti. Ef þú vilt ná fram réttlæti í Tyrklandi er þinghúsið staðurinn þar sem það er að finna,“ sagði Erdogan þegar hann ávarpaði hóp athafnamanna í Istanbúl í dag. Hann beindi orðum sínum að Kilicdaroglu og sagði: „Þú skalt ekki láta það koma þér á óvart ef dómsyfirvöld bjóða þér að líta einhvers staðar inn á morgun.“

epa06029171 Turkey's main opposition Republican People's Party (CHP) leader Kemal Kilicdaroglu and supporters hold placards reading 'Justice',  during a march from Ankara to Istanbul to call attention to arrests by Turkish courts, in
 Mynd: EPA
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV