Er búinn að hitta parið í Brasilíu

16.01.2016 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskt par, sem var handtekið í Brasilíu milli jóla og nýárs grunað um að hafa ætlað að smygla kókaíni úr landi, hefur átt fund með starfsmanni á vegum Utanríkisráðuneytisins.

Starfsmanninum er ætlað að skoða aðstæður parsins í Brasilíu og tryggja því réttláta málsmeðferð.

Tuttugu og sex ára karlmaður og tvítug kona frá Íslandi, voru handtekin á móteli í borginni Fortaleza í Brasilíu milli jóla og nýárs í lögregluaðgerð. Þau eru grunuð um að hafa ætlað að smygla nokkrum kílóum af kókaíni úr landi. Brasilískir fjölmiðlar segja að parið hafi verið búið að koma fíkniefnunum fyrir í smokkum og fölskum botnum í ferðatöskum.

 

Fjölskyldurnar leituðu til Utanríkisráðuneytisins

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa upplýsingar um mál parsins ekki enn borist íslenskum lögregluyfirvöldum. Fjölskyldur parsins leituðu til utanríkisráðuneytisins eftir aðstoð, eftir að parið var handtekið.

„Ég get staðfest að starfsmaður á vegum ráðuneytisins fór til Brasilíu til að aðstoða þau í þessu máli og hann hefur hitt þau. Okkar hlutverk í svona málum, þessu eins og öðrum, er að kanna aðstæður og reyna að tryggja að þau fái réttláta málsmeðferð,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins, í samtali við fréttastofu.

Utanríkisráðuneytið veitir engar frekari upplýsingar um málið, frekar en önnur mál af sambærilegum toga. Urður segir að fjölskyldur parsins hafi leitað til ráðuneytisins eftir aðstoð milli jóla og nýárs. Óvíst er hversu lengi starfsmaður ráðuneytisins verður parinu innan handar í Brasilíu. „Hann verður bara eins lengi eins og þarf. Það verður bara metið eftir því hvernig honum vinnst,“ segir Urður.