Epískt, gítarhlaðið indírokk

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Rythmatik
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Waves
 · 
Menningarefni

Epískt, gítarhlaðið indírokk

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Rythmatik
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Waves
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
11.04.2017 - 11:40.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Sigurvegarar Músíktilrauna 2015, Rythmatik, eiga nú að baki tvær stuttskífur og vinna um þessar mundir að sinni fyrstu breiðskífu. Önnur stuttskífan, Waves, inniheldur fjögur innblásin rokklög af indígerðinni og rýnir Arnar Eggert Thoroddsen í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Rythmatik unnu Músíktilraunir örugglega árið 2015 og hafa haldið sér virkum síðan með spilahaldi og plötugerð sem er ekki alltaf tilfellið. Sigurinn þá kom kannski ekki harla mikið á óvart en sveitin hafði einnig tekið þátt árinu á undan og var því orðin feykiþétt ári síðar. Sex laga plata, Epilepsy, kom út þá um haustið og verður að teljast firnagóður frumburður. Lagasmíðar fínar, spilamennska enn betri og orkuríkt, öruggt og töffaralegt indírokk á efnisskránni. Klingjandi, surgandi gítarsprettir en aldrei á kostnað lagauppbyggingar eða melódíu.

Öldur

Síðasta haust kom svo út önnur plata, fjögurra laga stuttskífa undir heitinu Waves. Munurinn á þessum plötum er sosum ekki sláandi, enn er fengist við indírokk en sveitin hefur þó tekið margvísleg framfaraskref, skárra væri það nú. Upptaka betri, hljómur fyllri, spilamennska betri og flóknari og metnaður meiri. Hlutirnir útpældari einhvern veginn, sjá t.d. upphafslagið sem er samnefnt plötunni. Drífandi „hendur á loft“ slagari – gengi vel inn í leikvanganna – og frábær samsöngur í vel grípandi viðlaginu. Og í laginu má vel heyra í Big Country áhrifunum sem liðsmenn nefna sjálfir í lýsingu á sveitinni, m.a. á Fésbókarsíðu sveitarinnar. Mér finnst „Bleed like a Poet“ ekki jafn vel heppnað, of grallaralegt einhvern veginn, asnaleg Blink 182 stemning í gangi (!). Eftir smekklegt millispil („Sofðu rótt“) er hlaðið i kinnroðalausan smell sem ber nafn við hæfi, „Sugar Rush“. Einfalt, nánast ódýrt, og það er ástæðan fyrir því að það virkar. Eiginlega ódýrt og rándýrt um leið! Hresst, ástríðufullt og kraftmikið en sveiflast hálfpartinn inn á strákasveitasvæði sem haldið er af 5 Seconds of Summer og viðlíka sveitum.  Þroskaðri smíðar, eins og „Waves“, eru til muna áhrifaríkari og meira sannfærandi og að því sögðu er lokalagið, „Peace has a Pencil in her Hair“ mjög flott, vel heppnuð ballaða og dægiljúfur samsöngur ræður ríkjum (Salóme Katrín syngur ásamt Hrafnkatli Huga söngvara).

Tvískipt

Dálítið tvískipt plata gæðalega en það er margt með Rythmatik, maður heyrir að það er hugur í mönnum og þessar misfellur í lögunum sem ég nefndi trufla mig ekki of mikið. Ég hlakka til að heyra stóru plötuna.

Tengdar fréttir

Tónlist

Allt hefur breyst, ekkert hefur breyst

Tónlist

Bylmingsslagarar í reffilegri Reykjavík

Tónlist

Þessi tyggjótík er vel töff!