Enskir unglæknar í verkfall

10.02.2016 - 05:22
epa05098329 A striking junior doctor working for the National Health Service (NHS) in England mans a picket line outside St Thomas Hospital in Lambeth, London, England, 12 January 2016. Junior doctors are holding a 24 hour strike calling for more pay and
 Mynd: EPA
Ensk sjúkrahús búa sig undir erfiðan dag, því á slaginu átta hefst sólarhringsverkfall unglækna sem starfa á ríkisspítulum í Englandi. Unglæknarnir krefjast betri launa og betri vinnuaðstæðna, rétt eins og eldri kollegar þeirra, en samningar Breska læknafélagsins og hins opinbera hafa verið lausir um hríð. Í tilkynningu frá stjórn bresku heilbrigðisþjónustunnar segir að yfir 2.800 aðgerðum sem ekki teljist lífsnauðsynlegar hafi þegar verið frestað.

Þá er reiknað með því að verkfallið hafi víðtæk áhrif á staðlaðar rannsóknir, skoðanir á bráða- og göngudeildum og fleira. Neyðarþjónusta verður veitt í verkfallinu. 

Upp úr slitnaði í samningaviðræðum læknafélagsins og hins opinbera í byrjun árs. 12. janúar fóru læknar í sólarhringsverkfall, sem leiddi til þess að 4.000 aðgerðum og rannsóknum var ýmist slegið á frest eða aflýst. Allri neyðarþjónustu var þó sinnt í því verkfalli, rétt eins og því sem skellur á í dag. 

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, stendur aðalstyrinn um greiðslur fyrir vinnu á laugardögum. Breska læknafélagið vill að laugardagurinn allur sé skilgreindur utan venjulegs dagvinnutíma og launin taki mið af því. Heilbrigðis- og fjármálaráðuneytið vilja hins vegar halda í ákvæði núgildandi samnings, en samkvæmt honum er greitt venjulegt dagvinnukaup milli klukkan 7 og 17 á laugardögum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV