Enn óvissa hjá tónlistarskólum

13.01.2016 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn  -  RÚV
Tónlistarskólar á framhaldsstigi í Reykjavík hafa verið í óvissu lengi um hvort þeir eigi fyrir launum um mánaðamótin. Formaður Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík segir ráðamenn vísa hver á annan. Reykjavíkurborg undirbýr aðgerðir sem fleyta skólunum yfir þetta skólaár.

Samkomulag um eflingu tónlistarnáms var gert milli ríkisins og sveitarfélaganna í maí 2011. Með því átti að efla framhaldsstigið og söngnámi á mið- og framhaldsstigi. Það hefur ekki verið raunin því rekstrarhalli skólanna sem kenna á framhaldsstigi hefur sífellt aukist á þessum tæpu fimm árum vegna ágreinings um túlkun samningsins.

„Við erum í raun bara að fá 2/3 af kostnaði sem hlýst af nemendunum greiddan. Við eigum lögum samkvæmt að fá 100% af kennslukostnaði,“ segir Þórunn Guðmundsdóttir formaður Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík.

Þetta gerir reksturinn erfiðan. „Við veltum því fyrir okkur fyrir hver einustu mánaðamót hvort við eigum fyrir laununum. Hingað til hefur það gengið.“

Þórunn segir ráðamenn jákvæða í tali en árangur hefur verið lítill. „Það er eiginlega sama hvert við förum, hvort sem það er hjá ríki eða borg, það eru alir sem vísa á hinn. Það eru allir sammál aum að þetta er ófremdarástand, hvefur gengið allt of lengi svona, en hinir eiga að gera eitthvað í því.“

En nú er vonast til að það sé að breytast. Alþingi samþykkti fyrir jól að setja 60 milljónir í eflingu tónlistarnáms. Við það bætast 30 milljónir frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga og 90 milljónir frá Reykjavíkurborg. Í minnisblaði frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs kemur fram að stefnt sé að því að greiða fjármunina út fyrir næstu mánaðamót. Þetta leysir fjárhaginn á þessu skólaári.

Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að viðræður standi yfir milli sveitafélaga og ríkisins um hvernig haga á þessum málum til lengri tíma. Eftir því bíða tónlistarskólarnir - og vilja vera með í ráðum. „Það hafa ýmis mistök verið gerð, vil ég meina, vegna þess að það hefur ekki verið talað við okkur,“ segir Þórunn.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV