„Enn komið fram við konur eins og dýr“

05.10.2016 - 15:09
Indverski leikstjórinn Deepa Mehta er heiðursgestur RIFF, alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, í ár. Þar tekur hún við heiðursverðlaunum fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar. Nýjasta mynd hennar The Anatomy of Violence rannsakar einn alræmdasta glæp sem framinn hefur verið á Indlandi, hópnauðgun og morð á 23 ára gamalli stúlku í Nýju Delhi árið 2012. 

Mehta ætlaði aldrei að gera mynd um atvikið, segir hún í viðtali í Lestinni á Rás 1. Þegar hún var beðin um það neitaði hún því í fyrstu; hún hafi ekki haft áhuga á að gera kvikmynd sem fær áhorfendur til að endurupplifa hryllinginn. „Ég hafði áhuga á að skilja heim nauðgarans. Hverjir eru þessir menn og hvaðan koma þeir? Hvað er að gerast í samfélögum sem elur upp eða hlúa að nauðgurum.“ Henni fannst það stærri spurning en að benda á sökudólga eða draga upp mynd af mönnunum sem einhvers konar skrímsli.

Við getum gleymt glerþökunum

Deepa Mehta er einn virtasti handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi okkar tíma. Metha fæddist á Indlandi en býr nú og starfar í Kanada. Flestar kvikmyndir hennar tengjast Indlandi á einn eða annan hátt. Þrjár kvikmyndir hennar eru nú sýndar á kvikmyndahátíðinni RIFF; Midnight Children, Beeba Boys og hennar nýjasta sem heimsfrumsýnd var fyrir stuttu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, The Anatomy of Violence.

Markmið myndarinnar, The Anatomy of Violence, er að hefja samtal um kynferðisofbeldi, segir Mehta. „Ég vil sjá hvernig við sem samfélag erum fær um að búa til skrímsli. Það fæðist enginn sem skrímsli. Nauðgararnir eru ekki illir, en hvernig verða þeir afbrotamenn,“ spyr hún. „Ef við byrjum að velta þessu fyrir okkur, þá förum við að taka ábyrgð á vandamálinu.“

Hún bendir á að það sé stór markaður helgaður nauðgunarklámi og það viðgangist. „Þetta sýnir fram á margra alda þjálfun; hugsunarháttur þar sem konur eru ekki jafn mikils virði. Við sitjum hérna og tölum um glerþök. Við getum gleymt glerþökunum. Við getum gleymt jafnrétti. Það er enn komið fram við okkur eins og dýr. Það er eitthvað verulega mikið að í samfélaginu.“

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi