Enn gangi hægt að útskrifa sjúklinga

16.01.2016 - 08:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að þrátt fyrir að allir leggist á eitt þá gangi áfram hægt að útskrifa suma sjúklinga sem fengið hafa fulla meðhöndlun á sjúkrahúsinu.

Í forstjórapistli sínum á vefsíðu spítalans segir hann að áfram sé mikið álag á öllum deildum. Útskriftarvandinn gildi einkum um þá sem fengið hafi færni- og heilsumat og þá sem bíði endurhæfingar. Afar mikilvægt sé að fólkið komist sem fyrst í viðeigandi þjónustu. Hana sé ekki að fá á bráðadeildum Landspítala þar sem tugir einstaklinga bíði. Staðan sé ekki viðunandi.

Páll segir að spítalinn vilji að minnsta kosti geta boðið þessum hópi þjónustu á borð við þá sem veitt sé þeim einstaklingum sem bíði hjúkrunarrýmis á biðdeildinni á Vífilsstöðum. Hann fagnar fréttum af uppbyggingu hjúkrunarheimila samhliða viðræðum við velferðarráðuneytið um úrlausnir til skemmri tíma. Hann vonast til þess að þær lausnir verði kynntar fljótlega. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV