Enn ekki vitað um afdrif allra

17.06.2017 - 18:23
epa06033417 People look over floral tributes close to Grenfell Tower, a 24-storey apartment block in North Kensington, London, Britain, 17 June 2017. Search and Rescue efforts are continuing to sift through the burnt out remains of the tower. At least 58
 Mynd: EPA
Lögreglan í Lundúnum staðfesti í dag að 58 séu taldir af eftir eldsvoðann í Grenfell fjölbýlishúsinu á miðvikudag. Mikil reiði ríkir í Bretlandi vegna atburðarins, sem margir segja birtingarmynd þeirrar miklu stéttaskiptingar sem ríkir í landinu. Flestir íbúa blokkarinnar tilheyra fátækari hluta borgarbúa.

Búið er að bera kennsl á 30 einstaklinga eftir eldsvoðann á miðvikudag. Hið minnsta 28 til víðbótar er enn saknað og lögreglan telur útilokað að þau finnist á lífi. 

Stuart Cundy, lögreglustjóri í Lundúnum segist vonast til að tala látinna komi ekki til með að hækka. Það geti þó hæglega gerst. Ekki er enn vitað um afdrif allra íbúa hússins, en 120 íbúðir voru í 24 hæða byggingunni. 19 eru enn á sjúkrahúsi, þar af eru tíu í lífshættu. 

Fórnarlambanna er minnst víða um Bretlandseyjar. Búið er að birta opinberlega nöfn þriggja þeirra sem létust í brunanum. 

Mohammed Alhajali var einn þeirra. Hann var 23 ára flóttamaður frá Sýrlandi og bjó á 14. hæð blokkarinnar. Hin 24 ára Khadija Saye bjó á 20. hæð og er einnig meðal hinna látnu. Þá er búið að birta nafn Isaacs Shawo, sem varð viðskila við fjölskyldu sína eftir að eldurinn blossaði upp og fannst síðar látinn. Hann var fimm ára.

Árleg hátíðahöld til heiðurs her og drottningu í Bretlandi fóru fram í skugga atburða miðvikudagsins. Elísabet drottning sagði erfitt að halda í hefðirnar og fagna nú þegar drungi hvílir yfir þjóðinni. Fórnarlambanna var minnst með mínútuþögn við Buckinghamhöll í dag.

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, opnaði dyrnar á Downingstræti 10 og hitti þá sem komust lífs af úr eldsvoðanum og hjálparstarfsfólk í dag. May hefur verið gagnrýnd fyrir að skorta samhug, gagnrýni sem hún vísar alfarið á bug. Hún sé jafn harmi slegin og restin af þjóðinni. Hún hefur heitið fimm milljóna punda fjárframlagi sem renna á til þeirra sem misstu allt sitt í brunanum. 

May viðurkenndi að aðstoð og upplýsingar til handa þeim sem komust lífs af úr eldsvoðanum hafi ekki verið fullnægjandi. Nú verði hinsvegar í algjörum forgangi að koma fyrrum íbúum fjölbýlishússins til aðstoðar og lofaði að búið yrði að útvega þeim öllum húsnæða innan þriggja vikna. 

Meint aðgerðaleysi yfirvalda við ábendingum um skort á brunavörnum í húsinu hefur verið harðlega gagnrýnt og upp úr sauð í gær þegar tugir brutu sér leið inn í ráðhús Kensington og Chelsea hverfanna til að krefjast þess að borgaryfirvöld öxluðu ábyrgð á vanrækslunni. Þá eru margir reiðir vegna skorts á úrræðum fyrir þau sem misstu allt sitt í brunanum, en meirihluti íbúa Grenfell blokkarinnar tilheyrir fátækari hluta Lundúnarbúa. 

„Þetta er sagan af tvískiptri borg. Þetta er það sem Charles Dickens var að skrifa um á þarsíðustu öld. Og veruleikinn er enn eins árið 2017,“ sagði David Lammy, þingmaður Verkamannaflokksins.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV