Enn ekki tekist að finna upptök olíumengunar

17.07.2017 - 15:29
Mynd með færslu
Grafarvogur. Myndin er úr safni.  Mynd: RÚV
Olíumengun í læk sem rennur í Grafarvog er að mestu liðin hjá og eru engin merki um að olía sé enn að blandast í lækinn. Deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar segir ganga illa að finna upptök mengunarinnar.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi fyrst frá menguninni á föstudag. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar vann að því alla helgina, ásamt Veitum, að finna upptökin, en án árangurs. 

Hægara sagt en gert

Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfseftirlits Heilbrigðiseftirlitsins, segir að í dag hafi starfsfólk haldið áfram að rannsaka málið. Farið hafi verið kerfisbundið í brunna til að reyna að finna upptökin en erfiðlega gangi að finna orsök mengunarinnar. „Þetta er bara hægara sagt en gert,“ segir Rósa. 

Hún segir að mengunin sé þó mjög á undanhaldi og engin merki séu um að nú sé að koma nein olía í vatnið. Hins vegar hafa verið settar sérstakar gildrur í brunna til þess að vakta þá. 

Ákvörðun um framhaldið tekin í kvöld

Í hádegisfréttum RÚV í gær biðlaði Rósa til almennings og atvinnurekenda um aðstoð við að finna orsök mengunarinnar. „Við fengum nokkrar ábendingar en ekkert sem hefur leitt til neinnrar niðurstöðu,“ segir hún. 

Rósa segir ólíklegt að nokkur hætta sé á ferðum fyrir fólk á svæðinu. Enn sé þó smá olíubrák í grasinu. „Hver og einn verður bara að meta það fyrir sig, en það er kannski ekkert huggulegt,“ segir Rósa. 

Áfram verður unnið að því að finna upptök mengunarinnar í dag en ákvörðun um framhaldið verður tekin í kvöld.

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV