Enginn vafi á hæfi forsætisráðherra

31.03.2016 - 08:14
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, telur engan vafa vera á hæfi forsætisráðherra vegna aflandsfélags í eigu konu hans. Hann telur að þau hjónin hafi staðið fyrir máli sínu.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagðist í Morgunútvarpinu á Rás 2 skilja vel hugrenningar almennings þegar staðir eins og Tortóla eru nefndir. Engin leynd hafi hinsvegar verið um félag eiginkonu forsætisráðherra og skattar greiddir hér á landi. 

Sigurður Ingi var spurður í þættinum út í hæfi forsætisráðherra og hvort það væri hafið yfir allan vafa að hagsmunatengsl hafi ekki haft áhrif í samningum við kröfuhafa þegar kona hans var einn þeirra. „Ég er ekki viss um að það hefði verið gott á þeim tíma þegar þessi vinna var í gangi að forsætisráðherra hefði átt að upplýsa fólk sem var að vinna að því að ganga svona kröftuglega fram gegn kröfuhöfunum, að hann hefði gefið þær upplýsingar á sama tíma að kona hans væri einn af kröfuhöfunum. Væri hann þá að gefa einhverjar leyndar upplýsingar að það ætti að fara einhverja mildari leið.“

Eru þetta ekki rök fyrir því að hann er vanhæfur í málinu? „Ég held ekki. Hann er fyrst og fremst að vinna fyrir hagsmuni þjóðarinnar,“ svaraði Sigurður Ingi. 

Í Morgunútvarpinu var rifjað upp að Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og áður sjávarútvegsráðherra, sagði sig frá málefnum sem snertu Sparisjóð Hafnarfjarðar því hann átti bréf þar og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi átt samskonar bréf og gert grein fyrir þeim til að forðast hagsmunaárekstur. Sigurður Ingi var spurður að því hvort þarna hafi ekki minni hagsmunir undir en hjá forsætisráðherra. „Hæfi þingmanna snýr eingöngu að kennitölu okkar og fjárhagslegum hagsmunum þeirrar kennitölu. Þannig að ég held ekki.“

Meinarðu að það sé öðruvísi því þetta er eiginkona Sigmundar? „Já, hún er það. Hann hefur aldrei nokkurn tímann á þessum tíma verið að velta þessu fyrir sér.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi