Enginn kennaraskortur í einkareknu skólunum

15.08.2017 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist  -  RÚV
Sjálfstætt starfandi skólar glíma ekki við kennaraskort og fá starfsumsóknir frá fleiri kennurum en þeir geta ráðið. Formaður Samtaka sjálfstæðra skóla segir að laun séu ekki lykilatriði hjá kennurum. Sveigjanlegt starfsumhverfi sé eftirsóknarverðast.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður menntamálanefndar Alþingis sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að ein leið til að bæta úr kennaraskorti sé að fjölga einkareknum grunnskólum landsins. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara vísaði því á bug og sagði brýnna að bæta launin heilt yfir.

Fréttastofa aflaði upplýsinga frá sjálfstætt starfandi skólum á Íslandi og áttu þeir sammerkt að eiga ekki í vandræðum með að ráða kennara til starfa en nú vantar á þriðja tug kennara í almenna skóla í Reykjavík.

Í flestum sjálfstætt starfandi skólum eru greidd hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir, allt frá tíu til fimmtíu þúsund krónum á mánuði - en þá er ósjaldan verið að greiða fyrir aukið vinnuframlag . 

Kristján Ómar Björnsson, stofnandi grunnskólans NÚ og formaður Samtaka sjálfstæðra skóla segir að vandamál skólastjórnenda NÚ sé miklu frekar það hve margir sækja um. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga segir hann áherslur skólans. „Við erum að veita ákveðinn sveigjanleika og svigrúm fyrir starfsfólkið okkar, að fá skapa og gera nýtt, en ekki vinna innan mjög stífs ramma,“ segir Kristján.

Laun ekki mikilvægust

Í umsóknarferlinu spyrja stjórnendur NÚ umsækjendur um það hvað skipti kennarana mestu máli varðandi starfið. „Við höfum við beðið fólk að raða því upp hvað sé mikilvægast fyrir þau, laun, samanborið við sveigjanleika í starfstíma og ýmislegt annað. Og laun eru ekki að skora hæst,“ segir Kristján

Á landinu starfa tæplega 4.900 manns við kennslu í 170 grunnskólum með tæplega 45 þúsund nemendur. Sjálfstætt starfandi skólar eru 13 með um ellefu hundruð nemendur. Það þýðir að um tvö og hálft prósent nemenda á íslandi ganga í sjálfstætt starfandi skóla. Svíar eru með hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, 14 prósent.  

Kristján vill fleiri sjálfstætt starfandi skóla hér á landi. „Ég held við þurfum meiri fjölbreytileika og sveigjanleika í þessu frekar stífa kerfi sem hefur þróast síðastliðna áratugi og ég held að nærtækasta og einfaldasta leiðin sé að opna fyrir fleiri sjálfstætt starfandi skóla. Það er rekstrarform sem við höfum nú þegar og höfum áratuga reynslu af. Þarna erum við með eitthvað sem hefur reynst vel, til að mynda Hjallastefnuna sem fáir efast um að eigi erindi á Íslandi í dag,“ segir Kristján.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir