Engin áform um starfsnám háskólanema

06.02.2016 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa  -  RÚV
Menntamálaráðuneytið hefur engin áform um að auðvelda háskólanemum að komast í starfsnám. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra kveðst opinn fyrir umræðu um það en segir áhersluna fyrst og fremst á starfsnám á framhaldsskólastigi.

Samtök iðnaðarins hafa blásið til herferðar þar sem lögð er áhersla á að þeir sem fari í iðnnám fái alltaf vinnu. Skortur er á fólki í flestum iðngreinum, sérstaklega húsasmíði og erfiðleikar við að komast að í vinnustaðanámi fæla marga nemendur frá. Illugi segir mikilvægt að kynna starfsnámið snemma. 

„Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að eftir því sem háskólanemendur fá betri tækifæri til að kynnast atvinnulífinu og reyna sig í þeim störfum sem það er að mennta sig undir því betra, en það er ekki á borðinu nein tillaga eða útfærðar hugmyndir um þetta en mér finnst þetta áhugaverð umræða,“ segir Illugi. 

Hann segir mikilvægt að háskólanemar sem stefni að ákveðnum störfum fái tækifæri til að spreyta sig á því sviði. 

„Ég held að við ættum að vera opin fyrir allri þessari umræðu, aðalatriðið er að í háskólanáminu læri það sem þeim er ætlað þar. Þetta væri einhvers konar viðbót vænti ég,“ segir Illugi. 

Hann telur að fyrirtæki litu ekki á þetta sem tækifæri til að ná sér í ódýran starfskraft. Menn þurfi að vinna eftir kjarasamningum.  „Og síðan gera fyrirtækin samninga við sína starfsmenn beint eftir atvikum og ég held að það sé kannski engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því. Þá kemur það bara fram og þá takast menn á við það ef að sá vandi kemur fram.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV