Engin æðarhreiður lengur við Tjörnina

20.01.2016 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ástand fuglastofna Reykjavíkurtjarnar er óviðunandi og ekki í samræmi við mikilvægi fuglanna fyrir borgarbúa. Þetta kemur fram í skýrslu um fuglalíf tjarnarinnar sem lögð var fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag.

Æðarvarp við tjörnina taldi yfir 70 hreiður þegar mest var en á síðasta sumar komst enginn æðarfugl á legg, segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur, annar höfunda skýrslunnar. Niðursveifla hafi verið hjá öllum fimm andartegundum sem verpa við tjörnina, stokkönd, gargönd, skúfönd, duggönd og æður. Duggönd, skúfönd og gargönd hafi hins vegar notið góðs af kríuvarpi, sem hafi verið með óvenjugott á síðasta ári. „Þær fá vernd af kríunni, þeim þykir gott að vera innan um kríuna og hún heldur afræningjum frá og lætur vita ef óboðinn gestur kemur í varpið og er hörð af sér að halda ferfættum og öðrum vængjuðum afræningjum í skefjum. Þetta er ein ástæðan en líka batnandi aðstæður í Vatnsmýrinni.“

Framkvæmdir í Vatnsmýri efldu kríuvarpið

Verndaraðgerðir að frumkvæði Norræna hússins í friðlandinu í Vatnsmýri hafa gert mikið fyrir kríustofninn segir Jóhann Óli. Þar var gerður hólmi sem krían sækir í fyrir varp, en fyrri varpstaður er nú að drukkna í hvönn. Í skýrslunni er því beint til borgaryfirvalda að sjá til þess að halda ákveðnum gróðri í skefjum. „Þetta er hvönn, skógarkerfill og þistill sem er versta illgresið sem helst herjar á hólma og friðlandið. Plönturnar vaxa svo þétt að þær leggja undir sig varpstaðinn og koma í veg fyrir varp. Krían vill hafa lágvaxinn gróður, helst sand eða flög og það er ekkert pláss fyrir hana, hún er svo stuttfætt blessunin. Hún getur ekki troðið sér þarna inn á milli. Þessvegna þarf að halda þessu í skefjum og hefði átt að gera fyrir löngu. Þorfinnshólmi hefur ekki verið varpstaður í fleiri ár vegna hvönn.“

Jóhann Óli segir að borgaryfirvöld þurfi að drepa niður gróðurinn. „Þetta breyttist þegar verið var að vinna við friðlandið í Vatnsmýri fyrir fáeinum árum, þá urðu til þessi flög sem krían hefur getað notað síðan og það þarf að halda þeim við sem gróðurlitlum blettum.“

Þörf sé á eftirlitsmanni 

Í skýrslunni er hvatt til þess að ráðinn verði eftirlitsmaður til að sjá um umhirðu tjarnarfuglanna. „Starfsmaður var í slíku starfi frá árinu 1973 til 1985 og einhverjir síðan sem hafa verið í því að tína rusl og eitthvað svoleiðis. En það hefur ekki verið neinn andapabbi svokallaður síðan árið 1985. Það er reyndar kominn borgarlíffræðingur hjá borginni sem hefur verið með okkur í þessum tjarnarmálum og staðið fyrir tilraunum með ungasleppingar á tjörninni. En hann er í mörgu öðru þannig að það væri gott að hafa þarna starfsmann eins og var,“ segir Jóhann Óli. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV