Engar sannanir til gegn Sigurjóni

Sigurjón Árnason og Sigurður G. Guðjónsson fyrir utan Hæstarétt eftir málflutning í allsherjarmarkaðsmisnotkunarmáli Landsbankans.
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson  -  RÚV
Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Árnasonar fyrrverandi Landsbankastjóra, segir að ekkert hafi komið fram um að Sigurjón hafi lagt á ráðin um allsherjarmarkaðsmisnotkun í Landsbankanum.

Saksóknari vill þyngri refsingu

Málflutningur fór fram í Hæstarétti í dag í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni og þremur undirmönnum hans. Fjórmenningarnir eru sakaðir um að halda uppi verði hlutabréfa í bankanum í tæpt ár fyrir hrun. Sigurjón, Ívar Guðjónsson og Júlíus Steinar Heiðarsson voru dæmdir í héraðsdómi, en þó aðeins fyrir hlutabréfaviðskipti síðustu fimm dagana fyrir hrun. Sá fjórði, Sindri Sveinsson, var sýknaður. Saksóknari vill að Hæstiréttur dæmi þá fyrir markaðsmisnotkun allt tímabilið sem ákært er fyrir, og að refsing verði þyngd. Til greina komi að dæma Sigurjón, sem áður hefur hlotið þriggja og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti, í meira en sex ára fangelsi, sem er almenn hámarksrefsing fyrir efnahagsbrot.

Undirmennirnir aldrei bent á Sigurjón

Júlíus Steinar og Sindri voru almennir starfsmenn eigin viðskipta bankans, og Ívar var yfirmaður þeirrar deildar. Almennu starfsmennirnir tveir áttu viðskiptin sem ákært er fyrir, í nafni bankans, en saksóknari telur að það hafi verið að undirlagi deildarstjórans og bankastjórans.

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, segir að ekkert hafi komið fram um að Sigurjón hafi lagt á ráðin um markaðsmisnotkun. Saksóknari hafi ekki leitt nein vitni fyrir dóm sem hafi getað borið um að Sigurjón hafi haft afskipti af starfsemi eigin viðskipta. Undirmennirnir þrír hafi heldur ekki vitnað um afskipti Sigurjóns. Júlíus Steinar hafi sérstaklega nefnt að hann væri nokkuð viss um að Sigurjón hefði hvorki þekkt hann í sjón né kannast við nafn hans.

Alltaf leitast við að segja satt og rétt frá

Sigurður segir að Sigurjón hafi aldrei átt í verðbréfaviðskiptum fyrir Landsbankann, og sú staðreynd að hann hafi verið annar af tveimur bankastjórum dugi ekki til að sanna sekt hans. Þá hafi Sigurjón aldrei haft hagsmuni af því hvert gengi hlutabréfa í Landsbankanum var, og hann hafi aldrei nýtt sér kauprétti. Gengi hlutabréfanna hafi skipt hann engu máli.

Sigurður segir að engin rök séu til að bæta við þann fangelsisdóm sem Sigurjón hefur þegar fengið. Hann hafi alltaf kannast við allt sem hann hafi gert og hafi leitast við það í öllum yfirheyrslum hjá lögreglu og fyrir dómi að segja satt og rétt frá. Aldrei hafi hann þóst ekki muna einhver tiltekin atriði. Dómararnir verði líka að hafa í huga að málist sé búið að „drattast“ í kerfinu frá 13. janúar 2011, þegar Sigurjón var hnepptur í gæsluvarðhald.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV