„Endurspeglar misskilning og þekkingarleysi“

21.08.2016 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, segist ekki hafa miklar áhyggjur af gagnrýni félags kvenna í lögmennsku á tillögur um breytingar á lögmannalögunum sem samþykktar voru á félagsfundi á fimmtudag. Formaðurinn segir gagnrýnina endurspegla misskilning og þekkingarleysi.

RÚV sagði frá því í gær að Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku, hefði sent Ólöfu Nordal innanríkisráðherra bréf þar sem breytingartillögurnar á lögmannalögunum voru harðlega gagnrýndar. Reimar hefur ekki miklar áhyggjur af þessu og segir félagsmenn almennt ánægða með tillögurnar.

Við verðum ekki vör við annað en að félagsmenn séu bara ánægðir með þessar tillögur sem við höfum gert. Það var haldinn fundur þar sem þær voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta. Það voru allir boðaðir til fundarins, bæði karlar og konur og það var stór hópur kvenna sem greiddi þessu atkvæði og studdi þetta. Þessar tillögur hafa mælst vel fyrir, ekki síst meðal ungra lögmanna og það er auðvitað ekki við öðru að búast í 1.100 manna félagi en að það séu einhverjar óánægjuraddir en við í sjálfu sér höfum engar sérstakar áhyggjur af þessu.

Gagnrýni Félags kvenna í lögmennsku gangi að mestu út á það að breytingarnar væru í raun að gera héraðsdómslögmönnum erfiðara fyrir að afla sér hæstaréttarlögmennskuréttinda. Þær myndu lengja tímann sem ferlið tæki og flækja það. Reimar segir það ekki vera rétt. 

Ég held að það endurspeglar í sjálfu sér mikinn misskilning og ákveðið þekkingarleysi á því hvað þarf í dag til þess að verða hæstaréttarlögmaður. Það vita það allir sem eru að vinna að því verkefni að það útheimtir áralanga vegferð þar sem menn þurfa að sækjast eftir prófmálum hjá starfandi hæstaréttarlögmönnum. Þessi prófmál eru í dag mjög fá og það er mjög erfitt að fá þau. Reynslan er sú að það tekur fimm til tíu ár, jafnvel lengri tíma, fyrir menn að afla sér þeirra. Þó það sé einhver frestur skilgreindur í lögunum þá held ég að það sjái það nú vel flestir að þetta er til þess fallið að liðka mjög fyrir í framhaldinu. 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV