Endahnúturinn á Baugsmálinu

18.05.2017 - 12:41
Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur, við þingfestingu ákæru á hendur honum og þremur Glitnismönnum í Aurum Holdings-málinu.
 Mynd: RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu komst samhljóða að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni. Tryggvi segir að fjöldi sambærilegra mála hér á landi séu í uppnámi. Niðurstaða mannréttindadómstóls var birt í morgun en hún er líklega endahnúturinn á Baugsmálinu.

Baugsmálið hófst 2002 þegar efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit í höfuðstöðvum Baugs. Nokkru síðar voru gefnar út ákærur vegna fjárdráttar og umboðssvika og fleira. Héraðsdómur dæmdi Jón Ásgeir Jóhannesson í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggva Jónsson í tólf mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og fleiri brot. Jóni Ásgeiri var gert að greiða 62 milljónir króna í sekt en Tryggva 32 milljónir.

Hvorki Jón Ásgeir né Tryggvi höfðu greitt sektina

Skattrannsóknarstjóri greindi embætti ríkislögreglustjóra frá meintum skattalagabrotum í nóvember 2004. Þeir Jón Ásgeir og Tryggvi voru ásamt Kristínu Jóhannesdóttur dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir rúmum fjórum árum fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Ákærum er varða fjárfestingafélagið Gaum var vísað frá mannréttindadómstólnum. Tvímenningarnir töldu sig hafa þurft að þola refsingu á tveimur stöðum, hjá yfirskattanefnd, og dómstólum. Brotin sem dæmt var fyrir voru þau sömu, þeir höfðu ekki talið fram til skatts. Í dómi mannréttindadómstólsins segir að hvorki Jón Ásgeir né Tryggvi hafi greitt sektina. Báðir fóru fram á að sektargreiðslurnar yrðu felldar niður og dómstóllinn féllst á það. Íslenska ríkið hafi brotið gegn fjórðu grein mannréttindasáttmála Evrópu en þar er fjallað um réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis.

„Dæmt fyrir sömu atvik og búið er að refsa fyrir“

Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs segir málið hafa verið tekið til rannsóknar hjá stjórnvöldum og sú meðferð hafi endað með því að tekin var ákvörðun um nýja skattlagningu og refsingu. „Það sem gerist og er brot af þessu er að í framhaldi af því skuli hefjast önnur málsmeðferð þar sem lögreglan tekur sama mál til rannsóknar og á grundvelli lögreglurannsóknarinnar er gefin út ákæra og dæmt fyrir sömu atvik og búið er að refsa fyrir í fyrra skiptið. En hætti einhvern tíma rannsóknin eða var gert eitthvað hlé? Þegar að rannsókinni lýkur, eða það sem miðað er við er þegar stjórnvöld taka hina endanlegu ákvörðun sem getur í síðasta lagi verið hjá yfirskattanefnd þá er auðvitað þeirri málsmeðferð lokið, hún getur ekki farið lengra. Refsimeðferð sem að leiðir af lögreglurannsókn er síðan bara önnur og sjálfstæð meðferð sem er brot samkvæmt þessum dómi sem birtur var í morgun,“ segir Gestur. 

Fjöldi dómsmála í uppnámi

Í málsvörn ríkisins var bent á svipuð mál í Noregi. Ekkert hlé hafi verið gert á rannsókn málsins og því séu sömu glæpir til rannsóknar. Tryggvi Jónsson fagnar niðurstöðunni og segir að fjöldi sambærilegra mála hér á landi séu í uppnámi. „Niðurstaðan kemur alls ekki á óvart vegna þess að hún er í samræmi við dóma sem mannréttindadómstóllinn hefur fellt í sambærilegum málum. Þannig að það kemur ekki á óvart. Ég veit að ríkisvaldið reyndi að vísa í norskan dóm frá því í fyrra þar sem að mannréttindadómstóllinn fjallaði um norskt mál en það var á allt öðrum grunni þannig að við héldum alltaf okkar bjartsýni í þessu máli. Þetta mál mun líka hafa mjög víðtæk áhrif, langt umfram okkar raðir vegna þess að það eru mörg sambærileg mál, bæði í gangi og sem búið er að fella niðurstöðu um sem munu verða væntanlega í einhvers konar uppnámi eftir þetta,“ segir Tryggvi.