Embættismenn flýja Venesúela

22.08.2017 - 19:46
epa06156720 President of Venezuela, Nicolas Maduro, speaks at a press conference with international media at the Miraflores Palace in Caracas, Venezuela, 22 August 2017. Maduro commented on several issues including the poor relations with the United
 Mynd: EPA  -  EFE
Fimm dómarar og þingmaður stjórnarandstöðunnar í Venesúela leituðu hælis í dag í sendiráði Chile í Caracas. Dómurunum hefur verið veitt diplómatísk friðhelgi. Maduro, forseti Venesúela, fer fram á aðstoð Frans páfa við að koma í veg fyrir að Bandaríkjastjórn blandi sér með hervaldi í deilurnar milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Dómararnir fimm eru meðal 33 löglærðra Venesúelamanna sem þing landsins hafði tilnefnt til setu í hæstarétti landsins. Stjórnarandstæðingar eru í meirihluta á þinginu. Daginn sem þeir voru skipaðir gaf ríkisstjórn Nicolas Maduros forseta út skipun um að þeir skyldu teknir höndum. Stjórnvöld í Chile hafa  farið fram á að þeir fái að ferðast óáreittir úr landi. Þingmaðurinn hefur ekki fengið stöðu diplómats enn sem komið er að minnsta kosti.

Stjórnvöld í Kólumbíu tilkynntu í gær að Luisa Ortega, ríkissaksóknari í Venesúela, sem svipt hefur verið embætti, fengi hæli í landinu óskaði hún eftir því. Ortega flýði til Kólumbíu eftir að hún var rekin. Hún hélt þaðan í dag til Brasilíu.

Biður páfann um aðstoð

Nicolas Maduro forseti Venesúela kveðst ætla að fara fram á það við alþjóðalögregluna Interpol að Ortega verði handtekin þar sem til hennar næst. Hún eigi ákæru yfir höfði sér heima fyrir. Þá hefur hann óskað eftir aðstoð Frans páfa til að koma í veg fyrir hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í landinu, að því er fram kom á fundi hans með fréttamönnum í Caracas í dag.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV