EM: Slóvenía mætir Spáni í undanúrslitum

12.09.2017 - 20:42
epa06200626 Slovenia's Luka Doncic (back) in action against Latvia's Kristaps Porzingis (front) during the EuroBasket 2017 Quarter Final match between Slovenia and Latvia, in Istanbul, Turkey 12 September 2017.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Það er ljóst að Slóvenía mætir Spáni í undanúrslitum Evrópumótsins í körfuknattleik. Slóvenar unnu í kvöld sex stiga sigur á Lettlandi í leik mótsins hingað til. Lokatölur 103-97 Slóvenum í vil.

Sóknarleikur upp á tíu - Varnarleikur upp á núll

Fyrri hálfleikur leiksins var líklega skemmtilegasti hálfleikur mótsins til þessa en bæði lið voru frábær sóknarlega á meðan varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska. Slóvenar voru þó alltaf með yfirhöndina í fyrsta leikhluta og voru með 11 stiga forystu þegar leikhlutanum lauk. Staðan 34-23 og Goran Dragic með 13 stig.

Það virtist sem Slóvenar hafi reiknað með því að annar leikhluti yrði auðveldur en þeir voru engan veginn tilbúnir í dansinn sem Lettar buðu þeim upp í. Á meðan Slóvenar skoruðu aðeins 17 stig þá settu Lettar 32 stig. Staðan því 55-51 Lettum í vil þegar flautað var til hálfleiks. 

Lok, lok og læs

Á meðan Slóvenar sváfu í byrjun annars leikhluta þá voru Lettar í djúpsvefni þegar síðari hálfleikur hófst. Slóvenar byrjuðu nefnilega þriðja leikhluta á 11-0 áhlaupi sem kom þeim sjö stigum yfir áður en Lettar tóku leikhlé. Þó þeir hafi á endanum komist á blað þá skoruðu þeir aðeins 11 stig í öllum þriðja leikhluta leiksins.

Slóvenar höfðu yfirhöndina í fjórða leikhluta en Lettarnir komust samt sem áður nálægt því að jafna leikinn. Lokamínútur leiksins voru stórkostleg skemmtun en leiknum lauk á endanum með sex stiga sigri Slóvena. Lokatölur 103-97.

Tölfræði leikmanna

Luka Doncic var stigahæstur með 27 stig hjá Slóvenum ásamt því að taka níu fráköst. Goran Dragic kom þar á eftir með 26 stig, átta stoðsendingar og sex fráköst. Klemen Prepelic setti svo 17 stig á meðan Anthony Randolph skoraði 16 stig og tók níu fráköst.

Hjá Lettum var Kristaps Porzingis með 34 stig ásamt því að taka sex fráköst. Dairis Bertans bætti við 23 stigum en það dugði ekki til í kvöld.

Slóvenía mætir því Spáni í undanúrslitum þann 14. september.

Á morgun lýkur 8-liða úrslitum, fyrri leikur dagsins er Grikkland gegn Rússlandi klukkan 15:45 og Ítalía mætir Serbíu klukkan 18:30. Leikirnir að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV og RÚV2.

epa06200562 Slovenia's Goran Dragic (C) in action against Latvia's Dairis Bertans (R) and Kristaps Porzingis (L) during the EuroBasket 2017 Quarter Final match between Slovenia and Latvia, in Istanbul, Turkey 12 September 2017.  EPA-EFE/SEDAT
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður