Elías og Svana Íslandsmeistarar í kata

05.03.2016 - 15:14
Mynd með færslu
Svana Katla Þorsteinsdóttir og Elías Snorrason eru Íslandsmeistarar í kata.  Mynd: Karatesamband Íslands
Íslandsmeistaramótið í kata fór fram í Hagaskóla í dag og var góð þátttaka. Elías Snorrason úr KFR mætti Boga Benediktssyni í úrslitum í karlaflokki og fór svo að lokum að Elías stóð uppi sem sigurvegari. Þetta er í fjórða sinn sem Elías verður Íslandsmeistari.

Í kvennaflokki mættust Kristín Magnúsdóttir og Svana Katla Þorsteinsdóttir. Þetta er síður en svo í fyrsta skiptið sem þær mætast í úrslitum. Svana Katla fagnaði sigri annað árið í röð. Þær stöllur Svana Katla og Kristín ásamt Örnu Katrínu Kristinsdóttur unnu svo hópkata kvenna og vörðu þar með titil sinn síðan í fyrra, er þetta 5. árið í röð sem sveit Breiðabliks með þeim Kristínu og Svönu vinnur hópkata kvenna. Svana Katla er því tvöfaldur Íslandsmeistari í kata.

Hópkatalið Þórshamar var mætt til að verja titil sinn síðan í fyrra og unnu þeir Bogi Benediktsson, Sæmundur Ragnarsson og Ásmundur Ísak Jónsson félaga sína í Þórshamri í úrslitum.

Þegar öll stigin voru tekin saman stóð karatefélagið Þórshamar uppi sem sigurvegari með 19 stig og er því Íslandsmeistari félaga í kata fullorðinna.

Næstu verkefni landsliðsfólks okkar í kata er sterkt sænskt katamót 12. mars og Norðurlandameistaramótið sem haldið verður í Danmörku 9. apríl næstkomandi.

Úrslit dagsins
Kata kvenna
1. Svana Katla Þorsteinsdóttir, Breiðablik
2. Kristín Magnúsdóttir, Breiðablik
3. Laufey Lind Sigþórsdóttir, Breiðablik
3.María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamar

Kata karla
1. Elías Snorrason, KFR
2. Bogi Benediktsson, Þórshamar
3. Arnar Júlíusson, KFV
3. Aron Anh Ky Huynh, ÍR

Hópkata kvenna
1. Breiðablik, Arna Katrín, Kristín, Svana Katla
2. Þórshamar, Diljá, Edda, María Helga
3. Þórshamar, Ólöf Azia, Jóna

Hópkata karla
1. Þórshamar, Bogi,Sæmundur, Ásmundur Ísak
2. Þórshamar, Birkir, Brynjar, Jónas

Heildarstig félaga
1. Þórshamar, 19 stig
2. Breiðablik, 12 stig
3. KFR, 3 stig

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður