Eldfim klæðning áfram í jarðgöngum

11.07.2017 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ægisson  -  Siglfirdingur.is
Ekki stendur til að sprautusteypa eldfima klæðningu sem er ber í nokkrum göngum á Íslandi. Það er þó hægt. Á sínum tíma þótti í lagi sprautusteypa ekki klæðninguna svo lengi sem að brunahólf væru útbúin í göngunum.

„Það stendur ekki til að skipta því út en það er fullkomlega mögulegt að sprauta steypu yfir það, sprautusteypa,“ segir Guðmundur Rafn Kristjánsson, deildarstjóri jarðgangadeildar Vegagerðarinnar um eldfima klæðningu í fernum jarðgöngum á Íslandi, í Göngum undir Breiðadals- og Botnsheiði eða Vestfjarðagöngum, Strákagöngum, Oddsskarði og Múlagöngum. „Á sínum tíma var þetta talið í lagi með því að útbúa ákveðin brunahólf. Þannig að það eru ákveðin skil á nokkrum stöðum í göngunum svo að ef til kæmi að það kviknaði í göngunum þá nær eldur ekki á milli þessara hólfa.“

Ný göng eru sprautusteypt í dag og klæðningin ekki ber. Ekki stendur til að sprautusteypa göng með berri, elfimri klæðningu vegna kostnaðar og ryks og mengunar sem að henni fylgir. Þá þyrfti að loka göngunum á meðan framkvæmdir færu fram og hjáleiðir ekki til staðar. Guðmundur segir líkur á eldi í jarðgöngum taldar vera mjög litlar - það sé þó ástæða til að líta slík atvik alvarlegum augum. 

Í fréttum Bylgjunnar í gær var talað við Ólaf Guðmundsson, starfsmann Eurorap, sem benti á að mörg jarðganga á Íslandi standast ekki öryggisúttekt Eurorap. Þá eru þessi fjögur göng að hluta til klædd eldfimum efnum sem menn myndu aldrei leyfa sér að gera í dag. Eldfimu efnin hafa verið áður til umfjöllunar og fjallaði Ómar Ragnarsson til dæmis um málið sumarið 1999. Síðan þá er staðan óbreytt og stendur ekki til að hún breytist samkvæmt Vegagerðinni.