„Ekki val að hætta eftirför“

19.06.2017 - 13:01
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir ljóst að það hafi ekki verið val að hætta eftirför bílsins sem hafnaði í Ölfusá í morgun. Þetta hafi komið í ljós þegar ökutækinu var flett upp í málaskrá lögreglu. Ásgeir Þór Ásgeirsson ræddi við fréttastofu í hádegisfréttunum.

Eftirförin endaði með því að ökumaðurinn ók í Ölfusá. Honum var bjargað þar sem bíllinn festist undir brúnni, þar sem er nokkuð grunnt.

„Lögreglumenn við almennt eftirlit gáfu ökumanni bifreiðar stöðvunarmerki í Vogahverfi í Reykjavík. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og ók rakleiðis út á Sæbraut og Vesturlandsveg til austurs í Ártúnsbrekku og inn á Suðurlandsveg,“ segir Ásgeir.

Þar fór ökumaðurinn stuttan hring í Norðlingaholti áður en hann fór aftur á Suðurlandsveg í austurátt.

„Það varð fljótt ljóst þegar ökutækinu var flett upp í málaskrá lögreglu komu fram upplýsingar um að það yrði að stöðva þennan akstur. Það var ekki val að hætta eftirför. Fyrirmæli voru gefin um að stöðva akstur þessa ökutækis við fyrsta tækifæri. Á leiðinni reyndu lögreglumenn að koma lögreglubíl framfyrir til að hægja aksturinn en það gekk ekki því ökutækinu var í sífellu ekið í veg fyrir lögreglubílana,“ segir Ásgeir. Þess vegna hafi verið ákveðið að nota frekar ljós- og hljóðmerki til að vara aðra vegfarendur við hættunni sem hafði skapast.

„Við fengum aðstoð frá lögreglunni á Suðurlandi til að setja upp lokun við hringtorgið í Hveragerði. Bílnum var ekið fram hjá þessari lokun. Þar var ekið utan í hann en ökumanni tókst að halda stjórn á bifreiðinni og hélt áfram. Þá voru gefin fyrirmæli um að setja upp fasta lokun á Ölfusárbrú. Þegar ökumaðurinn varð var við þessa lokun ók hann óhikað vinstramegin út af veginum og út í ána,“ segir Ásgeir.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson  -  Sunnlenska
Guðmundur Karl Sigurdórsson