Ekki til hættumat fyrir Hvalnesskriður

29.02.2016 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin  -  RÚV
Hættumat vegna snjóflóða er ekki til fyrir Hvalnesskriður, að sögn sérfræðings hjá Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands. Óvenjulegt að svo mikið snjói á þessum slóðum en fyrir helgi var jafnfallinn snjór á bilinu 50-70 cm. Flóðin féllu í nótt þegar blotnaði í snjónum og flóð með stuttu millibili kalla á nánari skoðun. Ekki er vitað hve mörg flóðin voru en þau mynduðu samfellu sem náði yfir stóran hluta skriðnanna.

„Það er nú eiginlega þannig að ef það snjóar kemur snjórinn niður, því skriðan er svo brött. Það sem bjargar okkur er þess vegna fyrst og fremst það hvað snjóar lítið á þessu svæði,“ segir Jón Bjarnason verkstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn.

Fjöldi smærri flóða sem mynda samfellu

Að sögn Jóns féllu flóð fyrir nokkrum árum sem náðu nánast samfellt yfir allar skriðurnar. Flóðin núna eru ekkert einsdæmi og þau eru svo stór að ekki er víst að vörnum yrði komið við nema með því að loka veginum með vegskálum yfir allar skriðurnar. Það hafi aldrei komið til tals.

Fyrir helgi féllu hátt í fjörutíu misstór flóð, sem eru nánast samfelld, í Hvalnesskriðunum sjálfum samkvæmt talningu starfsmanna Vegagerðarinnar á Höfn. Talsverðar skemmdir urðu á vegriðum sjávarmegin sem ætluð eru til öryggis vegfarenda. 

Ekkert eftirlit með svæðinu

Þegar mikið snjóar og mikill snjór er á svæðinu, sér í lagi eins og núna fyrir helgi þar sem við bætast veðrabreytingar úr frosti í þíðu, þá er nánast hægt að bóka að þetta er snjóflóðasvæði, segir Ari Guðmundsson hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði. Enginn snjóflóðaeftirlitsmaður er á því svæði sem um ræðir og veðurstofan getur ekki út snjóflóðahættuspá fyrir svæðið, það nær ekki lengra en suður til Fáskrúðsfjarðar. 

Ekki nægilegar upplýsingar um svæðið

Hvalnesskriður eru vel þekktur ofanflóðastaður. Þar verður þó einkum grjóthrun og aurskriður. „Við þurfum að bæta því við gagnagrunna okkar hvaða aðstæður skapa þessa hættu. Þessi tvö skot sýna okkur að við höfum ekki nægar upplýsingar um þetta svæði,“ segir Sveinn Brynjólfsson hjá Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands. „Landfræðilega er í raun ekkert óeðlilegt að þarna falli flóð þegar þessar aðstæður skapast.“ Mögulega mætti meta þetta svæði með tilliti til snjóflóða en óvíst er að vörnum verði komið við.

Aðstæður sem þarna skapast eru svipaðar og á öðrum stöðum sem eru vaktaðir en miklum mun sjaldgæfari. Varnir eru á veginum vegna grjóthruns og auðskriðna en ekki er til hættumat fyrir snjóflóð.  Sveinn segir að þær varnir sem fyrir eru ráði illa við flóð af þessari stærð en veiti ákveðna vörn gegn minni flóðum.

Austanátt með mikill úrkomu

Ríkjandi austlæg átt hefur haft áhrif á hversu mikill snjór er í Hvalnesskriðum en að sögn Sveins snjóar venjulega ekki mjög mikið svo sunnarlega á landinu.

Þó að iðulega sé mikil úrkoma í aðdraganda snjóflóðahrina hefur hún ekki mikið forspárgildi um hvort snjóflóð falla enda eru úrkomukaflar líka tíðir aðra vetrardaga. Að því leyti hefur vindstyrkur meira forspárgildi því að gjarnan er mjög hvasst dagana fyrir flóðin. Úrkoma virðist hins vegar hafa áhrif á stærð flóðanna.

Snjóflóð eru algengari á Vestfjörðum en á Austfjörðum. Mestu munar að hlýrra er á Austfjörðum á vetrum og vetur eru heldur styttri. Vonskuveður af norðaustri er líka sjaldgæfara á Austfjörðum.

 

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV