Ekki tengsl milli þriggja stórra skjálfta

05.01.2017 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 varð í morgun í Kötluöskjunni undir Mýrdalsjökli. Jarðeðlisfræðingur Veðurstofunnar telur að skjálftinn tengist ekki skjálftum sem urðu í Hrómundartindi og í Bárðarbungu í gær. 

Allmikil virkni hefur verið í Kötluöskjunni frá því í haust en enginn órói fylgt þeim skjálftum. Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að engin merki séu um gosóróa. 

„Nei, við sjáum engin merki. Það eru engin merki um gosóróa eða slíkt. Og það er náttúrulega þessi skjálfti í morgun upp úr klukkan sjö, sem var 3,5 að stærð, hann var svona undir vesturhlutanum, það er við þekkta sigkatla (...) og virknin hefur verið þar líka í haust.“

Fjöldi skjálfta varð í gær við Hrómundartind á Hengilsvæðinu. Sá stærsti mældist 3,7 og fannst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Þá varð skjálfti af stærðinni 3,7 í Bárðarbungu í gærkvöld. Gunnar segir að ekki séu tengsl á milli þessara skjálfta.

„Nei, það er ekki hægt að tengja þetta neitt saman. Það hafa verið viðvarandi skjálftar í Kötlu undanfarnar vikur og mánuði, og jafnvel komið af og til skjálftar yfir þrjá. Þannig að það er ekki hægt að tengja þetta saman.“

Segir Gunnar. Skjálftarnir á Hengilsvæðinu tengist líklega flekahreyfingum. Þá sé mikill jarðhiti á Hengilsvæðinu - vökvi - sem geti haft áhrif. Þá hafi verið viðvarandi skjálftavirkni bæði í Kötlu og Bárðarbungu undanfarna mánuði og því hittist einfaldlega svona á í gær.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af vef Veðurstofu Ís