Ekki sú þjónusta sem Íslandspóstur hafi boðað

15.01.2016 - 13:20
Vesturbyggð Patreksfjörður Vesturbyggð Patreksfjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að leitað verði skýringa hjá Íslandspósti á þeirri skertu póstþjónustu sem fyrirsjáanleg er í sveitarfélaginu. Fækkun daga við póstdreifingu gangi þvert á það sem Íslandspóstur hafi boðað þegar pósthúsum var fækkað.

Íslandspóstur hefur óskað eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að fá að fækka dreifingardögum á pósti í dreifbýli. Þar eru meðal annars tilgreindir byggðarkjarnar, þar sem pósti hefur til þessa verið dreift fimm daga vikunnar. Farið er fram á að dreifingin verði framvegis annan hvern dag.

Staðir sem áður höfðu pósthús

Þetta eru staðir eins og Hauganes og Árskógssandur, Borgarfjörður eystri, Bakkafjörður, Reykjahlíð, Laugar í Reykjadal, Hafnir og fleiri. Á sumum þessara staða var pósthús sem búið er að loka. Þrír þeirra eru í Skagafirði; Varmahlíð, Hofsós og Hólar. Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs í Skagafirði segir þetta mikið áhyggjuefni. „Og hjálpar ekki til við að laða fólk að varðandi búsetu og annað. Það er enn og aftur verið að höggva í landsbyggðina.“

Ekki það sem Íslandspóstur boðaði

Hann bendir á að á Hólum sé háskólastarfsemi og þetta sé slæm skerðing þar. Þá sé ekki langt síðan pósthúsunum á Hofsósi og í Varmahlíð hafi verið lokað. „Ein af forsendum þess að menn lokuðu var sú að menn ætluðu ekki að skerða þjónustu. Þetta yrði þjónustuaukning og ég get ekki séð að þetta sé þjónustaukning.“

Ætla að óska skýringa

Hann segir þetta sé að fara í nákvæmlega þann farveg sem heimamenn í Skagafirði hafi óttast. „Og örugglega munum við óska eftir fundi með þessum ágætu mönnum til þess að átta okkur á því hvað þarna er í gangi og hvaða forsendur liggja að baki,“ segir Stefán Vagn.

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV