Ekki stutt ríkisstjórnina í tvö ár

11.03.2013 - 13:38
Mynd með færslu
„Aldrei var neinn vilji til að standa við loforðið um skjaldborg heimilanna," sagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka, sem gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið undir því að kalla sig norræna velferðarstjórn, vinstristjórn.

Lilja sagði að það hefði verið von sín og margra annarra sem tekið hefðu þátt í búsáhaldabyltingunni að við tæki ríkisstjórn sem væri reiðubúin að vinna gegn ójöfnuði og ægivaldi fjármálastofnana. Þessi von hafi ekki gengið eftir. Komið hafi í ljós að enginn munur væri á vinstriflokkunum og hægriflokkunum. Hugsjónum hefði verið fórnað fyrir ráðherrastóla.

Lilja sagðist hafa stutt vantrauststillögu á ríkisstjórnina vorið 2011 þar sem henni hafi þá verið orðið ljóst að ríkisstjórnin myndi aldrei storka fjármálaöflunum með því að vinna í þágu heimilanna. Ástæðan fyrir því að hún greiddi atkvæði með vantrausti þá hefi verið önnur en nú. Staðreyndin sé hins vegar sú að hún hafi ekki stutt ríkisstjórnina í tvö ár.

Fyrr í dag sagði Jón Bjarnason að fyrir sér mætti ríkisstjórnin fara frá ef það yrði til þess að umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði dregin til baka á morgun. Þó hann segði ekki beint út að hann ætlaði að greiða atkvæði með vantrauststillögunni var hann mjög gagnrýninn á ríkisstjórnina sem hann taldi hafa brugðist hlutverki sínu.

Lilja og Jón eru bæði meðal þeirra þingmanna sem kosin voru á þing fyrir Vinstri-græn í síðustu kosningum en sögðu síðar skilið við þingflokkinn. Sá þriðji er Ásmundur Einar Daðason, sem gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Sá fjórði, Atli Gíslason, er hins vegar fjarverandi á Alþingi í dag, og greiðir því ekki atkvæði um vantrauststillöguna.